Andlát: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sigurður Grétar Guðmundsson.
Sigurður Grétar Guðmundsson.

Sigurður Grétar Guðmundsson, pípulagningameistari, er látinn, 78 ára að aldri.

Sigurður Grétar fæddist að Sandhólaferju í Rangárþingi 14. október árið 1934. Foreldrar hans voru Guðmundur Halldórsson, bóndi á Sandhólaferju, og kona hans, Anna Jóhanna Sumarliðadóttir.

Sigurður Grétar lauk sveinsprófi í pípulögnum árið 1958 og starfaði við það fag alla ævi. Hann nam leiklist í Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran árin 1959 og 1960, starfaði með Leikfélagi Kópavogs í fjölda ára, var í forystu þess félags og fleiri félaga í Kópavogi. Sigurður Grétar sat í bæjarstjórn Kópavogs árin 1966-1974 og tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður á árunum 1967-1971.

Sigurður Grétar skrifaði bókina „Þinghóll“ sem kom út 1995 og fjallar um pólitíska umbrotatíma í Kópavogi fram á áttunda áratuginn. Árið 2011 gaf hann út sögulegu skáldsöguna „Spádómur lúsarinnar“ sem byggðist á ævi og örlögum föðurafa hans, Halldórs Halldórssonar, á 19. öld á Suðurlandi.

Sigurður Grétar Guðmundsson átti stóran þátt í að innleiða nýjungar í pípulögnum hérlendis, svo sem snjóbræðslulagnir, gólfhita og nýjar lagnaaðferðir svo sem úr plasti eða með þrýstitengjum. Í ein 16 ár ritaði hann pistla í Morgunblaðið undir heitinu Lagnafréttir, sem áttu sér fjölbreyttan og dyggan lesendahóp.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar Grétars er Helga Harðardóttir, búsett í Þorlákshöfn. Sigurður Grétar og Helga eiga fimm börn og fjölmörg barnabörn og barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert