Kirkjuhald í skólanum á Drangsnesi

Í grunnskólanum á Drangsnesi er ekki einungis andi ungdómsins virkjaður af kennurum staðarins heldur er einnig öllu heilagari boðskap komið á framfæri.

Vill svo til að í einni kennslustofunni hefur verið búið svo um hnútana að hægt er að breyta ásýnd skólastofnunnar á svipstundu og í ljós kemur predikunarstóll, altari ásamt því sem kirkjubekkir eru í nærliggjandi herbergi sem auðvelt er að færa inn í skólastofuna. Enda hefð fyrir því að kirkjuhald á Kaldrananeshreppi fari fram inni í skólastofunni.

Ekki er langt síðan hávær umræða var um það að trúboð ætti ekki erindi í grunnskólastarfi í Reykjavík. Því kann einhverjum að þykja þetta fyrirkomulag kúnstugt.

Drangsnesingar kæra sig hins vegar kollótta um slíkar vangaveltur og ef tekið er mið af orðum skólastjórans Birnu Hjaltadóttur og Aðalbjargar Óskarsdóttur, formanns sóknarnefndar, unir almættið sér, líkt og annars staðar, hreint ágætlega innan um skólakrakkana.

Þetta fyrirkomulag hefur verið á kirkjuhaldi á Drangsnesi frá því skólinn var byggður árið 1942.

Nánari umfjöllun má finna um Drangsnes í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert