„Össur líflegur en ekki nákvæmur“

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármansson, formaður utanríkismálanefndar, segir koma til greina að þingið samþykki ályktun um stuðning við afstöðu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, án þess að slíta viðræðum með formlegum hætti.

Birgir sagði á Alþingi í dag í umræðum um Evrópumál að ræða Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra hefði verið „lífleg en ekki mjög nákvæm“. Hann sagði að „yfirlýsingar hans um stefnu flokka og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar hefðu verið býsna ónákvæmar.“

Birgir sagði því nauðsynlegt að fara yfir stefnu flokkanna svo það væri rétt til þeirra vitnað í þingtíðindum.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt ályktun þar sem segir: „Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Birgir sagði að við gerð stjórnarsáttmála flokkanna hefði verið stuðst við orðalag sem kemur fram í samþykktum flokksþinganna, en þar segir: „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Tveir kostir í stöðunni

Birgir sagði að búið væri að stöðva viðræðurnar. Það hefði verið gert hlé á viðræðunum, en þeim hefði ekki verið slitið. Þetta væri í samræmi við stjórnmálasáttmálann. Unnið væri að gerð skýrslu um viðræðurnar og þegar hún lagi fyrir yrði hún tekin til umræðu á Alþingi.

„Þá blasa við nokkrir mismunandi kostir,“ sagði Birgir. „Einn kosturinn er sá, að gera eins og sumir hafa rætt í þessari umræðu að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu sem nemi úr gildi þingsályktunina frá 16. júlí 2009. Það er hægt og í kjölfarið væri eðlilegt að senda Evrópusambandinu bréf um að Ísland segi sig formlega frá viðræðunum. Það er formlegt skref sem unnt væri að stíga eftir umfjöllun Alþingis sem hér liggur fyrir. Sá möguleiki er líka fyrir hendi að láta nægja, í þingsályktunartillögu af þessu tagi, að segja að Alþingi styðji þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á viðræðunum.“

Birgir sagði að það hefði ekki verið tekin nein ákvörðun um að slíta viðræðum eða að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefði hins vegar sett málið í ákveðinn farveg. Það yrði síðan þingsins að taka afstöðu til mismunandi kosta.

Össur Skarphéðinsson á Alþingi í dag.
Össur Skarphéðinsson á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert