Vilja nýjan leik- og grunnskóla í Hafnarfirði

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður.

Mæta þarf þörfum vaxandi byggðar á Völlum og nýrrar byggðar í Skarðshlíð. Þetta segir Eyjólfur Þór Sæmundsson, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, en hann lagði fram tillögu að skólaskipan á Völlum og í Skarðshlíð á fundi fræðsluráðs í vikunni.

Í dag þjónar Hraunavallaskóli íbúum Vallahverfisins í Hafnarfirði. Í skólanum eru börn á leikskóla- og grunnskólastigi en að sögn Eyjólfs er skólinn orðinn nokkuð þétt setinn. Um síðustu helgi var opnað fyrir umsóknir um lóðir í Skarðshlíð, svæði sem liggur upp að hlíðinni sunnan og vestan í Ásfjalli. Gert er ráð fyrir að íbúum á svæðinu fjölgi nokkuð á næstu árum.

Hraunavallaskóli verði safnskóli

Í tillögunum sem Eyjólfur kynnti á fundinum er meðal annars lagt til að heilsuleikskólinn að Hamravöllum verði stækkaður úr fimm deildum í sjö, þannig að rými skapist fyrir fjörtíu börn til viðbótar þeim fjölda sem er nú þegar í skólanum.

Þá er lagt til að hafin verði bygging fimm deilda leikskóla við Bjarkarvelli á næsta ári á þeim grunni sem þar er fyrir og verði þar til um 120 leikskólapláss. Á móti verða losaðar lausar kennslustofur við Hraunavallaskóla þar sem nú eru 50 leikskólabörn og húsnæðið nýtt fyrir grunnskólann til að mæta fjölgun nemanda þar.

Í þriðja lagi er lagt til að byggður verði nýr grunnskóli fyrir nemendur í fyrsta til sjöunda bekk við Hádegisskarð, sem þjóni Skarðhlíð og hluta Valla. Þegar er gert ráð fyrir slíkri skólabyggingu í skipulagi.

„Unglingarnir fari í Hraunavallaskóla sem verði safnskóli á unglingastigi fyrir allt Vallasvæðið, en dregið verði úr yngsta- og miðstigi þar,“ segir Eyjólfur. Stærð og áfangaskipting hins nýja skóla ræðst af uppbyggingu í hinu nýja hverfi og til að byrja með verður hann útibúa frá Hraunavallaskóla.

Umræðu um tillögurnar var frestað til næsta fundar fræðsluráðs.

Framkvæmdir við Áslandsskóla ekki hafnar

Fyrr á þessu ári greindi mbl.is frá því að framkvæmdir við viðbyggingu Áslandsskóla í Hafnarfirði væru ekki hafnar, en þar sagði Eyjólfur meðal annars að brýnt væri að ráðast í framkvæmdir og þeim þyrfti helst að ljúka á þessu ári. Íbúum hefði fjölgað á svæðinu og ætti enn eftir að fjölga.

„Það stendur fyrir dyrum að byggja seinni áfangann, íþróttahús og kennslustofur,“ segir Eyjólfur. Unnið er að undirbúningi og verður málið fljótlega tekið upp í fræðsluráði þar sem tillaga vegna málsins verður lögð fram á næstunni, að sögn Eyjólfs.





Eyjólfur Þór Sæmundsson, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar.
Eyjólfur Þór Sæmundsson, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert