72% vilja flugvöll í Vatnsmýrinni

Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls segjast 72,2% svarenda vera hlynnt (fremur eða mjög) því að framtíðarstaðsetning flugvallarins í Reykjavík verði í Vatnsmýrinni. Rösklega 17% segjast vera andvíg því (mjög eða fremur).

Þetta er niðurstaða könnunar sem maskina.is gerði um staðsetningu flugvallar.

Konur er fremur hlynntari því en karlar að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. Þá eru þeir sem hafa lokið háskólaprófi andvígari því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni heldur en þeir sem hafa lokið styttra námi. Íbúar á landsbyggðinni eru hlynntari því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni heldur en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Það vekur athygli að meirihluti Reykvíkinga,  annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins og íbúa landsbyggðarinnar vill að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Ekki reyndist marktækur munur á svörum þegar þau voru greind eftir aldri og fjölskyldutekjum.

Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks úr Þjóðskrá sem svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu eins og það er í Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 30. ágúst til 9. september 2013. Alls svöruðu 847 manns og var svarhlutfall tæplega 60% af upphaflegu úrtaki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert