Grét úr sér augun að sjá neyðina

Katrín Hrönn Harðardóttir
Katrín Hrönn Harðardóttir

„Ég grét úr mér augun við að sjá neyðina sem börnin bjuggu við, en þetta var samt rosalega góð lífsreynsla og ég mæli eindregið með þessu,“ segir Katrín Hrönn Harðardóttir sem fór sem sjálfboðaliði á vegum ABC-barnahjálpar til Afríku og dvaldi þar í mánaðartíma í sumar.

Dvölin hófst með nokkurra vikna námskeiði á vegum ABC-skólans í Nairobi í Kenía. Þar lærði Katrín Hrönn um Afríku, menninguna og þróunar- og hjálparstarfið en um tuttugu ungmenni tóku þátt í námskeiðinu.

Að því loknu var þeim skipt niður í fjögurra manna hópa og þeirra hlutverk var að ganga um fátækrahverfi eða „slömmið“ í Nairobi og taka skýrslu af fátækum börnum sem þurftu á skólavist að halda. Nöfn barnanna voru skrifuð niður á lista hjá barnahjálpinni og í kjölfarið gefst fólki tækifæri til að styrkja þau.

Katrín Hrönn starfaði einnig í Kariobangi-skólanum í Nairobi. Þar kynntist hún Peter en hún styrkir hann til náms. „Hann náði svo mikið til mín að ég ákvað að styrkja hann. Ég gaf honum fallegt bréf og fullt af fötum sem hann var mjög ánægður með.“

Þakklát styrktarforeldrum

Neyðin var víða. Katrínu Hrönn þótti átakanlegt að heimsækja Oiloitoktok, þar sem Masai-þjóðflokkurinn ræður ríkjum. Þar tíðkast að karlmennirnir eigi margar konur en þær eru eign samfélagsins. Þar sögðu konurnar henni að þær væru beittar ofbeldi. „Ég varð mjög leið að heyra þetta en við reyndum alltaf að sýna öllum krökkunum ást og væntumþykju.“

Hún segir að oft hafi verið erfitt að heyra frásagnir barnanna sem ólust upp við mikla fátækt. Ómetanlegt hafi verið að sjá með eigin augum hversu mikið máltíð, læknishjálp, skólavist og/eða heimavist hafi gefið börnunum.

„Ég fékk að heyra frá krökkunum hvað þau eru þakklát fyrir styrktarforeldra sína. Þau elska þá út af lífinu því án þeirra væru þau ennþá á götunni.“

Hún hvetur alla til að leggja málefninu lið og styrkja ABC-barnahjálp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert