Fjársjóður í Reykhólahreppi

Á bænum Seljanesi í Reykhólahreppi er sannkallaður fjársjóður, þar hefur Magnús Jónsson bóndi komið sér upp heljarinnar safni í samvinnu við fjóra syni sína.

Vélknúin farartæki eru fyrirferðarmest og þegar blaðamann bar að garði gangsetti einn sonanna, Stefán Hafþór Magnússon , Allis Chalmers-dráttarvél frá árinu 1947 og lét sig ekki muna um það að taka nokkra hringi um bæjarstæðið. Í heild eiga þeir 16 dráttarvélar og þar af 13 gangfærar.

Einnig eru í safninu tugir bíla og þeirra á meðal tvær rússneskar Volgur og er önnur þeirra gangfær. Einnig eiga þeir hina rússnesku Pobedu, gangfæran Landrover-jeppa frá árinu 1951 og Willys-jeppa frá árinu 1946 auk fleiri gersema. Þeir segjast ekki hafa hugmynd um hversu marga bíla þeir eiga.

Þá er í safninu fjöldi annarra gersema eins og framhlaðningur frá 19. öld, segulband frá fimmta áratugnum og klarínett frá KK sextett auk fjölmargra fleiri hluta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert