Glæpasaga til næsta bæjar

mbl.is/Gúna

„Það er frábært að fylgjast með velgengni íslenskra spennu- og glæpasagnahöfunda á erlendri grundu, sérstaklega Arnaldar Indriðasonar. Árangur hans er algjörlega á heimsmælikvarða,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, sem gefur bækur Arnaldar út hér á landi.

Egill segir áhuga útlendinga á íslenskum bókmenntum yfirhöfuð hafa aukist mjög á undanförnum tíu til fimmtán árum og velgengni Arnaldar Indriðasonar orðið til þess að ryðja brautina enn frekar fyrir íslenska spennu- og glæpasagnahöfunda. „Björk ruddi brautina fyrir íslenskt tónlistarfólk, sama hefur Arnaldur gert fyrir íslenska rithöfunda. Arnaldur er Björk okkar bókafólksins.“

Arnaldur á fremsta bekk

Hann bendir á, að skandinavískt glæpasagnaflóð hafi skollið á Evrópu og Bandaríkjunum undanfarin ár með höfundum á borð við Stieg Larsson og Henning Mankell. „Arnaldur hefur skipað sér á fremsta bekk glæpasagnahöfunda frá Norðurlöndum og áhuginn á hans verkum verið mikill. Eins hefur kynningarátakið sem tengdist því að Ísland var gestaþjóð á Bókastefnunni í Frankfurt verið okkur mjög mikil lyftistöng. Við njótum þeirrar kynningar enn í dag.“

Málsvæðin eru mörg og áhuginn virðist vera á heimsvísu, alltént hafa bækur Arnaldar komið út á tugum tungumála. Að sögn Egils fyrirfinnst varla það land í heiminum, þar sem ekki er hægt að finna bók eftir hann. Bækur Arnaldar hafa nú selst í yfir tíu milljónum eintaka um heim allan.

Gæðin eru mikil

Spurður um skýringu á því hvers vegna íslenskar glæpasögur virðist hitta svona vel í mark erlendis svarar Egill: „Íslendingar hafa staðið framarlega þegar kemur að ritun bóka og glæpasögur eru þar engin undantekning. Það sjáum við best á verðlaunum og viðtökum sem þessir höfundar okkar hafa hlotið á erlendri grundu. Gæði íslenskra höfunda eru mikil. Þeir standa erlendum kollegum sínum fyllilega jafnfætis og jafnvel gott betur. Þegar maður er með gott efni er leiðin oft greið.“

Það eru ekki bara gæðin. Egill telur ekki ósennilegt að tónninn í verkum íslenskra glæpasagnahöfunda höfði til fólks á framandi menningarsvæðum. „Það eru svo sem engin ný tíðindi, við getum farið allt aftur til Snorra Sturlusonar til að finna efni sem virkar víðar en á Íslandi. Ég held að það sé engin einhlít skýring á því. Það er sambland margra þátta.“

Hærri morðtíðni

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir gott gengi íslenskra glæpasagna helgast fyrst og síðast af því að þær séu alla jafna raunsæjar og vel unnar. „Ég er duglegur að lesa þessar bækur og finnst þær mjög fínar að öllu leyti. Þessir höfundar ná almennt mjög vel utan um þetta verkefni, það er að lýsa þessum heimi með sannfærandi hætti og svo hefur þetta klárlega bókmenntalegt gildi líka,“ segir Stefán.

Að hans dómi er lykillinn að velgengninni sá að sögurnar hljóma ekki einkennilega eða ótrúlega. „Það vekur samt athygli að tíðni morða á Íslandi er mun meiri í þessum bókum en í veruleikanum. Sem betur fer er hún ekki há. Þannig að þetta er bara jákvætt.“

Stefán staðfestir að algengt sé að glæpasagnahöfundar, bæði innlendir og erlendir, hafi samband við lögreglu meðan á ritun bóka stendur til að fá upplýsingar um eitt og annað sem snýr að rannsókn sakamála. „Þetta gera menn vegna þess að þeir vilja hafa smáatriði á hreinu. Það gefur þessum bókum ótvírætt gildi enda þekkjum við að það getur truflað þegar maður les um eitthvað sem maður þekkir vel til og hlutirnir eru ekki alveg eins og þeir eiga að vera,“ segir Stefán.

Hann segir fyrirspurnir vera af ýmsum toga og lögregla leggi sig fram um að greiða götu höfundanna, eins og hægt er.

Nánari umfjöllun má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Sunnudagsblaðið.
Sunnudagsblaðið.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert