Hreinsa ís af raflínum

mbl.is/ÞÖIK

Björgunarsveitarmenn frá Varmahlíð og Sauðárkróki voru kallaðar út um fimmleytið í morgun til að aðstoða starfsmenn RARIK við að berja ís af raflínum. Ekki er vitað hvenær því verki verður lokið.

Nokkrar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út seint í gærkvöldi og voru að störfum fram á nótt. Nýjum verkefnum fækkaði fljótlega eftir miðnætti og var þeim flestum lokið á fjórða tímanum.

Á Laugarvatni þurftu björgunarsveitarmenn að festa  þak á íbúðarhúsi og tryggja hurð á útigeymslu sem var við að fjúka upp.

Björgunarsveitin í Vestmannaeyjum var kölluð út þegar þakplötur fóru að fjúka  af íbúðarhúsi.

Bílar frá björgunarsveitum á Hvammstanga, Skagaströnd og Blönduósi voru á Kili fram á nótt og aðstoðuðu þar ferðafólk sem hafði fest bíla sína.

Björgunarsveitin Kári í Öræfum hafði flutt um 80 manns með bryndreka sínum í fjöldahjálparstöð í Hofgarði og í aðra gistingu í Öræfum frá því fyrir kvöldmat til um klukkan 22 í gærkvöldi. Margir lentu í vandræðum þegar grjót fauk á bíla á Skeiðarársandi og bílrúður brotnuðu. Einn bíll var skilinn eftir á sandinum og var fólkið úr honum sótt. Einnig leituðu margir á skemmdum bílum skjóls í Skaftafelli og Freysnesi og fengu far þaðan. Svo hvasst var að malbikið flagnaði upp af veginum við Skaftafellsá.

Helen María Björnsdóttir, leiðsögumaður hjá Glacier Guides í Skaftafelli, sagði að vel hefði tekið í bílinn sem hún var í í hviðunum þótt hún hefði sloppið við mestu ósköpin. Hún sagði að góð stemning væri á meðal fólksins í Hofgarði.

Neyðarlínunni höfðu borist um 670 hringingar um klukkan 21.30 í gærkvöldi frá miðnætti, sem þótti mikið. Álagið var mest milli klukkan 17 og 20. Aðstoðarbeiðnirnar bárust víða að af landinu. Erlendir ferðamenn sem ekki virtust hafa áttað sig á veðurspá og aðstæðum lentu ýmsir í ógöngum á fjallvegum.

Veðurstofan varar áfram við stormi eða roki á landinu. Veðrinu fylgja mjög snarpar hviður, yfir 40 m/s, víða um land en einkum suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum. Einnig er búist við talsverðri eða mikilli úrkomu austast á landinu.

Á Vestfjörðum var þungfært og óveður á Hrafnseyrarheiði og krap á fleiri fjallvegum og hálkublettir. Ófært var vegna óveðurs á Vatnsskarði í gærkvöldi.

Viðvörun frá veðurfræðingi:

Búist er við stormi eða roki (20-28 m/s) fram eftir degi, en síðan dregur úr veðurhæð. Illviðrinu fylgja mjög snarpar vindhviður (yfir 40 m/s), einkum SA-lands og á sunnanverðum Austfjörðum. Einnig er búist við talsverðri eða mikilli úrkomu austast á landinu og snjókomu ofan 150-250 metra. Eins má gera ráð fyrir öskumistri eða sandfoki S-til.

Veðurspáin næsta sólarhringinn

Norðan og norðvestan 20-28 m/s, hvassast SA-til. Víða mjög snarpar vindhviður við fjöll S-til. Talsverð eða mikil rigning eða slydda N- og A-lands og snjókoma til fjalla, en annars úrkomulítið. Dregur heldur úr vindi og úrkomu í dag, fyrst V-lands. Norðan og norðvestan 15-23 í kvöld, hvassast við A-ströndina. Hiti 0 til 10 stig, mildast syðst.

Sjá nánar á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert