Leigumarkaðurinn algjör frumskógur

Mikill skortur er á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.
Mikill skortur er á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. mbl.is/Árni Sæberg

„Markmið okkar er bara að standa vörð um hagsmuni leigjenda. Það þarf að endurskoða margt í þessum málum og það sem er brýnast núna er að leysa þennan bráðavanda því það eru fleiri hundruð manns sem eru nánast á götunni,“ segir Anna María Ingadóttir, einn aðstandenda Hagsmunasamtaka leigjenda sem stofnuð verða um helgina.

Stigvaxandi skriðþungi er í umræðunni um stöðu mála á leigumarkaði. Leigjendur hafa hópað sig saman á Facebook og m.a. sett af stað undirskriftarsöfnun við áskorun til stjórnvalda um aðgerðir. Málið var tekið fyrir á Alþingi í síðustu viku og hefur Eygló Harðardóttir ráðherra húsnæðismála heitið aðgerðum. Nú er svo framundan formleg stofnun hagmunafélags.

Vanþróuð leigumenning

Anna María segir greinilegt að mikil þörf sé til staðar og löngu tímabært fyrir að leigjendur tækju höndum saman. „Ég segi fyrir mig að mér finnst ofboðslega mikill stuðningur í því að tala um þetta við fólk sem nennir að hlusta, því þarna hittir maður fólk sem er að ganga í gegnum nákvæmlega sömu hlutina og skilur þá.“

Á síðustu árum hefur þeim fjölgað umtalsvert sem leigja íbúðarhúsnæði í stað þess að eiga. Samhliða því hefur ferðamönnum fjölgað á landinu og færst í vöxt að þeir taki íbúðir skammtímaleigu fremur en að gista á hóteli. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur því aukist umfram framboðið og leiguverð hækkað.

Vandinn felst því í því að erfitt er að fá leiguhúsnæði og margir ráða ekki við kostnaðinn, en hluti vandans er líka sá að sögn Önnu Maríu að leiguumhverfið er frumstætt og leigjendur upplifa mikið óöryggi.

Leigjendur eru hræddir

„Leigumarkaðurinn er mjög vanþroskaður hér miðað við nágrannalöndin. Þetta er algjör frumskógur og alveg happaglappa hvað gerist. Þannig hefur þetta alltaf verið, svo það er ekki eins og þetta sé nýtt vandamál, en nú er hópurinn orðinn svo stór að það er loksins farið að heyra í fólki. Ég held samt að leigjendur hljóti að vera eitthvert þolinmóðasta fólk á Íslandi og fólk er líka hrætt. Það er hrætt við að vera bara rekið út úr húsnæði ef það er eitthvað að kvarta.“

Síðan umræðuhópur leigjenda, vísirinn að Hagsmunasamtökunum, var stofnaður á Facebook hefur fjöldi fólks sett sig í samband við þau sem að honum standa og deilt sögu sinni og áhyggjum. Anna María segir að mikill samhljómur sé í því sem þau heyra.

Leigan hækkuð og tryggingin ekki endurgreidd

„Það er til dæmis verið að hækka leiguna hjá mjög mörgum núna og oft um háar upphæðir. Svo hef ég heyrt frá þremur manneskjum á stuttum tíma sem lentu í því að eigandinn er búinn að eyða tryggingafénu sem var sett fram í upphafi og fer fram á að í staðinn sé það tveimur mánuðum lengur í íbúðinni en samningurinn kveður á um. Og fólk spyr hvað það geti gert því það er búið að finna sér aðra íbúð. Þetta er greinilega að aukast, að eigendur freistist til að eyða tryggingafénu.“

Anna María segir því ljóst að hreinsa þurfi til í leigumarkaðsmálum og margt þurfi að laga til langs tíma, en brýnast sé að ráðast gegn þeim bráðavanda sem blasir við þeim 400-800 manns sem áætlað er að séu nánast á vergangi, búi annað hvort í óásættanlegu leiguhúsnæði eða á sófanum hjá ættingjum.

Sama hvaðan gott kemur

 „Það verður að gera eitthvað, því hvað á að verða um þetta fólk? Það getur ekki endalaust búið við þetta. Maður hefur líka áhyggjur af börnunum, því það er svo slæmt fyrir þau að búa við þetta óöryggi og þvælast milli hverfa og jafnvel bæjarfélaga. Grunnþörfunum verður að vera mætt til að samfélagið fúnkeri.“

Aðspurð um þær tillögur sem þingmenn Samfylkingarinnar settu fram í síðustu viku og eru nú til meðferðar hjá velferðarnefnd segir Anna María að hópurinn fagni því að skriður sé kominn á málinn og vonist til að þær verði að veruleika. 

„Við fögnum öllum hugmyndum og er sama hvaðan gott kemur. Við erum ekki pólitísk samtök. Það þarf að hugsa þetta út frá öllum hliðum, og kannski hugsa svolítið út fyrir kassann.“

Stofnfundur Hagsmunafélags leigjenda verður á laugardaginn kemur, að Grensásvegi 16a. Húsið opnar kl. 12 og dagskráin hefst kl. 14. Sjá á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert