Allar stéttir undir álagi á Landspítala

Tímabært er að verksvið allra heilbrigðisstétta á Landspítala verði endurskilgreint, …
Tímabært er að verksvið allra heilbrigðisstétta á Landspítala verði endurskilgreint, að mati bæði hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Löngu tímabært er að verksvið allra heilbrigðisstétta verði endurskilgreint, til að nýta verksvið og þekkingu hverrar stéttar til fullnustu. Þetta segir í yfirlýsingu frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, vegna stöðunnar á lyflækningasviði Landspítalans.

Félagsráðgjafar fagna því að leitað sé lausna á vanda lyflækningasviðs. Á blaðamannafundi Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra og Björns Zoëga forstjóra LSH í síðustu viku voru kynntar aðgerðir sem ráðist verður í til að létta álagi af læknum. 

Þar segir meðal annars að stuðningur við störf lækna verði aukinn verulega með því að nýta betur krafta og hæfni hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, klínískra lyfjafræðinga, ritara sérgreina og eftir föngum annarra starfsstétta.

Samráð verði við allar stéttir vegna álagsins

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsti því í kjölfarið yfir að nú þegar væri vinnuálag á hjúkrunarfræðinga gríðarlegt og hefði verið viðvarandi undanfarin á. Því væri varasamt að auka vinnuálag á hjúkrunarfræðinga LSH enda gæti það ógnað öryggi sjúklinga.

Löngu tímabært væri að endurskilgreina verksvið allra heilbrigðisstétta. Undir þetta tekur stjórn Félagsráðgjafafélagsins. 

„Félagsráðgjafar eru lykilstétt varðandi útskriftir sjúklinga frá Landspítala og þekkja vel til þess úrræðaleysis sem fyrir er í kerfinu nú [...] Félagsráðgjafar á lyflækningasviði Landspítala treysta á að í þeirri vinnu sem framundan er verði félagsráðgjafar hafðir í fullu samráði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert