Hringnum lokað

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingur afhendir Svía hring sem hann glataði á spænskri sólarströnd fyrir mörgum árum. Það gerðist hins vegar á Íslandi fyrir örfáum dögum þegar giftingarhringur rataði aftur í réttar hendur eigandanum til ómældrar gleði. „Hverjar eru líkurnar,“ spyr finnandinn.

Það vakti töluverða athygli á síðasta ári þegar hjónin Begga Rist og Sveinn Atli Gunnarsson höfðu uppi á eiganda giftingarhrings sem þau fundu á sólarströnd á Tenerife á Spáni árið 2008. Eigandinn fannst í maí í fyrra eftir að Aftonbladet í Svíþjóð frétti af leitinni. Þá hafði hringurinn verið týndur í sjö ár, líkt og mbl.is greindi frá á síðasta ári.

Breyttist í gullgrafara á fjarlægri sólarströnd

Fram kom, að ófáar leiðir höfðu verið reyndar til að hafa uppi á eiganda hringsins, sem Begga fann við leik með dætrum þeirra Sveins Atla á sólarströnd á Tenerife árið 2008. Innan í hringinn voru greypt nöfnin „Kerstin og Jan“ og dagsetning.

Að lokum kom það í ljós að eigandi hringsins var sænsk kona að nafni Kerstin. 

„Hverjar eru líkurnar á að þetta takist? Þetta er búið að vera eins og kraftaverk, það er margt sem þurfti að ganga upp,“ segir Begga í samtali við mbl.is.

„Ég er að leika við dætur okkar á ströndinni og er að grafa djúpt sýki við kastala. Þá var ég allt í einu orðin gullgrafari,“ segir Begga hlæjandi. Hún segir að hringurinn sé mjög fallegur og ljóst að hann hafi haft mikið tilfinningalegt gildi.

„Það var ekki fyrr en að maðurinn minn setti þetta á Google+ að hjólin fóru að snúast. Það var fjöldi fólks sem deildi þessu; allir hjálpuðust að,“ segir hún og bætir við að allir hafi fylgst afar spenntir með framvindunni.

Hringurinn rataði loks í réttar hendur

„Konan var alveg í skýjunum þegar við töluðum saman í fyrsta sinn; hún trúði þessu varla. Svo var hún svo ánægð að ég talaði sænsku þannig að við gátu talað saman á auðveldan hátt,“ segir Begga í samtali við mbl.is.

„Svo sagði hún: „Við komum bara til Íslands, þetta þýðir það.“,“ segir Begga en hjónin Kerstin og Jan ákváðu loks að koma til landsins í september til að sækja hringinn. „Það var alveg ofsalega gaman.“

- Gekkstu úr skugga um það að Kerstin væri með hringinn meðferðis þegar hún fór?

„Já, ég gerði það,“ segir Begga hlæjandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert