„Væri ég lifandi hefði ég sent þessa vísu inn í Moggann“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Í grein sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar skrifar í Morgunblaðið í dag vitnar hann í orð föður síns sem kom til hans í draumi. Myndir af þeim feðgum eru birtar með greininni og þar hefur Kári m.a. eftir ljóð sem faðir hans, Stefán Jónsson, vildi fá birt í blaðinu, væri hann lifandi.

„Ég las greinina hennar Guðrúnar um borð í flugvél á leiðinni til Nýju Jórvíkur og mér rann í brjóst um leið og ég var búinn með hana og allt í einu sat ég fyrir framan föður minn heitinn sem var mikill áhugamaður um íslenska tungu,“ skrifar Kári.

Í grein sinni fjallar Kári um skrif Guðrúnar Nordal í Morgunblaðinu á þriðjudaginn um íslenska tungu og byggingu húss íslenskra fræða. Kári hefur svo í greininni „beint eftir“ það sem faðir hans heitinn hafði að segja um málið er hann kom til hans í draumi. „Áhugi hans á íslensku var ekki fræðimannsins heldur manns sem þótti óendanlega vænt um hana, naut hennar fram í fingurgóma og var töluverður íþróttamaður í notkun hennar. Hann var líka búinn að lesa grein Guðrúnar og honum var mikið niðri fyrir,“ skrifar Kári um orð föður síns.

„Í dag eru það menn eins og Erpir og Bjarkir og Andrar og Hallgrímar og Helgar Seljans og Eglar Helgasynir og Ingunnir Snædals og Þorsteinar frá Hamri og Gyrðar Elíassynir og svo menn eins og Kristján sem er að leggja gólfið fyrir þig og Grétar sem er að múra fyrir þig sem flytja breytingar á tungumálinu til komandi kynslóða,“ hefur Kári m.a. eftir föður sínum í greininni. „Það hefði engin áhrif á þróun íslenskrar tungu þótt við lokuðum Stofnun norrænna fræða um lengri tíma. Og handritin geta beðið. Þau eru lagin við að bíða. Hafa gert það oft og lengi.“

Lokaorð föður Kára eru: „Góð íslenska er töluð af lifandi fólki sem líður vel.“

Og Kári skrifar: Á þessum síðustu orðum er ljóst að faðir minn hafði ekki bara lesið grein Guðrúnar í Mogganum heldur líka mína sem ég átti eftir að skrifa. Þannig að þótt það sé fátt aðlaðandi við dauðann er kýrskýrt að honum fylgja hlunnindi nokkur sem ekki hlotnast í lifanda lífi.“

Grein Kára má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert