Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna í …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna í dag. Skjáskot af Bloomberg.com

„Nei, ég hef aldrei raunverulega séð þá hagsmuni sem heimaland mitt hefði af því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Líkt og Noregur og Grænland, þessi nágrannalönd okkar í Norður-Atlantshafinu, höfum við talið það þjóna langtímahagsmunum okkar best að standa utan við sambandið.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við Bloomberg-fréttaveituna í dag þar sem hann var spurður hvort hann teldi að Ísland ætti einhvern tímann eftir að ganga í Evrópusambandið. Hann sagði ástæðu þess meðal annars landfræðilega staðsetningu Íslands og auðlindir landsins. ESB væri hins vegar á sama tíma afar mikilvægur samstarfsaðili Íslendinga.

Spurður hvaða þjóðum Ólafur teldi Íslendinga eiga mesta samleið með benti forsetinn á að Bandaríkjamenn hefðu lengi verið náinn samstarfsaðili Íslendinga og ein ástæða reglulegra heimsókna hans til Bandaríkjanna væri sú að leggja sitt að mörkum við að viðhalda því sterka sambandi. Hin Norðurlöndin, Þýskaland og Bretland hefðu að sama skapi alltaf verið miklir bandamenn Íslands í Evrópu. Tengsl við vaxandi efnahagsveldi í Asíu og víðar væru ennfremur að aukast.

Viðtalið við Ólaf Ragnar Grímsson

(Þau ummæli að Ísland ætti ekki eftir að ganga í ESB voru áður ranglega höfð eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í fréttinni. Ummælin voru hins vegar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert