Besti flokkur stærstur í borginni

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Besti flokkurinn og Vinstri græn bæta við sig fylgi í Reykjavík frá því í vor en aðrir flokkar tapa, samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Besti flokkurinn mælist stærstur flokka í borginni með 35% fylgi. Hann var með 32% í apríl og 35% í kosningum. Hann er því kominn aftur með kjörfylgi sitt.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31% fylgi, litlu minna en í apríl. Í kosningunum var flokkurinn með 34%. Miðað við könnun Gallup frá því fyrir ári hefur flokkurinn tapað rúmlega 10% yfir til Besta flokksins, sagði í frétt RÚV.

Samfylkingin mælist með 15% fylgi, tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun, og fjórum prósentustigum minna en í kosningum.

Vinstri græn mælast með 11%, bæta við sig þremur prósentustigum frá því í síðustu könnun og fjórum prósentustigum frá kosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 4%, en var með 9% í síðustu könnun. 4% myndu kjósa aðra flokka.

Besti flokkurinn fengi sex borgarfulltrúa ef þetta verður niðurstaða kosninganna, Sjálfstæðisflokkurinn fimm og Samfylking og Vinstri græn tvo. Eina breytingin frá kosningum yrði því að Samfylkingin tapaði manni yfir til Vinstri grænna, segir í frétt RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert