Biðlistar eftir íbúðum enn að lengjast

Sár þörf er á íbúðum bæði á almennum og félagslegum …
Sár þörf er á íbúðum bæði á almennum og félagslegum leigumarkaði. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

„Þótt við vildum kaupa íbúðir, þá eru þær bara einfaldlega ekki til,“ segir Sigurður Kr. Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf. sem eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar.

mbl.is sagði frá því í gær að yfir 800 manns væru á biðlista eftir félagslegum íbúðum. Af þeim eru 523 skilgreindir í brýnni þörf eftir húsnæði og er þörfin mest eftir litlum íbúðum, því um 80% þess sem bíða vantar 1-2 herbergja íbúð.

Að sögn Sigurðar hefur þetta verið stærsti hópurinn í mörg ár. „Við höfum lengi fundið fyrir þessu hjá Félagsbústöðum, þetta er búið að blasa við í langan tíma.“

Litlar íbúðir afgangsstærð

1-2 herbergja íbúðir hafa hins vegar ekki verið byggðar markvisst á Íslandi í mörg ár, nema þá sem stúdentaíbúðir. Það er einföldun að ætla að eftirspurn eftir litlum íbúðum sé einungis meðal stúdenta, því í reynd er hópurinn mun stærri og fjölbreyttari, sem sést á þeirri brýnu þörf sem nú er eftir húsnæði, sem ekki er til. 

„Litlu íbúðirnar voru bara afgangsstærðir þegar verið var að byggja fyrir hrun. Sem aukaíbúðir til að nýta rými í kjöllurum og risum,“ segir Sigurður.

Við skipulagningu nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu hefur áherslan fyrst og fremst verið á einbýlishús og raðhús. Þetta endurspeglar ekki þann veruleika að meira en helmingur íbúðarhúsnæðis er heimili einhleyps fólks, einstæðra foreldra eða barnlausra para. Þessir hópar fólks hafa farið stækkandi í borgarsamfélaginu og þurfa minni íbúðir.

Vakin var athygli á þessu í skýrslu Borgarfræðasetur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar árið 2002. Í góðærinu sem á eftir fylgdi var fyrst og fremst byggt stórt og frá hruni dró mjög úr nýbyggingum. Á tímabilinu 2009-2012 voru aðeins á bilinu 350-830 nýjar íbúðir fullgerðar á ári á höfuðborgarsvæðinu, en talað er um að þörfin m.v. fólksfjölgun sé um 1.500-2.000 nýjar íbúðir á ári.

60% fjölgun á biðlista á þremur árum

Aðspurður segir Sigurður að biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík hafi verið álíka langir fyrir kreppu, en strax við  efnahagshrunið hafi þeir tekið að styttast. „Þá flutti fólk af landi brott, bæði erlendir verkamenn og Íslendingar sem flutti til Noregs. Við þetta losnuðu íbúðir, leiguverð lækkaði aðeins og biðlistar styttust.“

Undanfarin þrjú ár hafa biðlistarnir þó tekið að lengjast aftur, um ein 60% frá 2010 og halda áfram að lengjast. „Það er mikið að seljast á markaði og svo eru margar íbúðir leigðar til ferðamanna. Túrisminn er einmitt að taka þessar litlu íbúðir, sem hækka þar af leiðandi í verði því það er lítið af þeim og mikil eftirspurn,“ segir Sigurður.

Um áramótin voru 493 á biðlistum skilgreind í brýnni þörf eftir húsnæði, en þau eru nú sem fyrr segir 523. Ekki útlit fyrir annað en að biðlistar eftir félagslegum leiguíbúðum lengist enn, allavega til skamms tíma.

Verður að byggja fleiri íbúðir

„Það verður náttúrlega að byggja,“ segir Sigurður aðspurður hvernig megi stytta biðlistana. Reykjavíkurborg stefnir að því að minni íbúðum verði fjölgað vítt og breitt um borgina á næstunni og allt að 2.000 slíkar verði byggðar, m.a. með því að eyrnamerkja lóðir slíkri uppbyggingu. Það veltur þó á því að hinn almenni markaður taki við sér.

Sigurður bendir einnig á að slík uppbygging taki alltaf tíma. „Það tekur 1-2 ár að byggja slíkar íbúðir og þær koma ekki allar í einu. Þannig að ég gæti trúað því að til skamms tíma lengdust biðlistar en kannski náist eitthvert jafnvægi ef það verður af framkvæmdum á næstu 3-5 árum.“

Frétt mbl.is: Vonlaus barátta á húsnæðismarkaði

Kallað er eftir byggingu íbúðahúsnæðis til að leysa vandann á …
Kallað er eftir byggingu íbúðahúsnæðis til að leysa vandann á bæði almennum og félagslegum leigumarkaði. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert