Kári: Erum ekki að nota bestu lyfin

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Golli

„Við erum heldur ekki að nota okkur bestu lyf sem eru á markaði. Við erum að mestu leyti að nota lyf sem eru komin af einkaleyfum, lyf sem eru einhvers staðar á milli 15 og 20 ára gömul. Við erum farin að reka læknisfræði sem er töluvert langt á eftir því sem gerist annars staðar, til dæmis í Skandinavíu,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en þar var m.a. rætt um heilbrigðiskerfið. 

„Staðreyndin er sú að við þurfum að fjárfesta mjög mikið [í heilbrigðiskerfinu] bara svo við höfum tækjabúnað til að geta stundað nútímalæknisfræði.“ 

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að vel menntað fólk væri starfandi í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. „Engu að síður hefur maður áhyggjur af því að starfsfólk er að fara úr landi og að endurnýja þurfi tækjakost.“

Kári sagði að skorið hefði verið niður á Landspítala og í heilbrigðiskerfinu allt frá árinu 2003. „Þó að við höfum að minnsta kosti á pappírum átt að heita mjög rík þá.“

Hann sagði því ekki hægt að kenna efnahagshruninu eingöngu um það sem búið væri að gerast í heilbrigðisþjónustunni. „Við sváfum á verðinum þegar kom að heilbrigðiskerfinu og vorum búin að gera það í að minnsta kosti áratug áður en hrunið átti sér stað.“

Kári sagði að hér á landi starfaði margt mjög gott heilbrigðisstarfsfólk. „Ég held því fram að það sé hægt að reka mjög góða læknisfræði á Íslandi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þetta samfélag réttir úr kútnum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við getum búið við mjög góð lífsskilyrði á Íslandi. Það er hins vegar ýmislegt sem bendir til þess að við séum kannski ekki að þræða rétta leið akkúrat núna.“

Kári vitnaði í erlenda hagfræðinga og sagði þá halda því fram að til að byggja upp efnahag eftir hrun þurfi að byrja á því að byggja upp heilbrigðiskerfið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert