Pattstaða í hrauninu

Hraunavinir voru mættir kl. 7 í morgun til að standa vörð um að ekki yrðu hafnar framkvæmdir í Gálgahrauni. Tvennum sögum fer þó af því hvort um sé að ræða Gálgahraun því margir segja að staðurinn sem verið sé að fara grafa í sé í raun Garðahraun en ekki Gálgahraun.

Rólegt var á svæðinu framan af og ekkert bólaði á gröfum íslenskra aðalverktaka -  upp úr kl. 9 fóru gröfurnar þó á stjá - Hraunavinir tóku sér þá stöðu við Hraunjaðarinn og neituðu að fara.

Gröfumenn verktakanna stöðvuðu þá gröfurnar stigu út og tóku til við að girða svæðið af þegar því var lokið báðu þeir mótmælendur um að yfirgefa vinnusvæðið. Hraunavinir sögðust þá ekki fara neitt og báru því við að þeir væru þarna komnir til að njóta útivistar á svæðinu og að engin girðing hefði verið uppi þegar þeir komu á svæðið. Send voru boð til fleiri Hraunavina sem tóku nú að streyma á vettvang.

Stuttu síðar komu tveir lögreglumenn á svæðið og báðu mótmælendurna enn um að færa sig - ekki var orðið við því en lögreglumennirnir báðu þá fólk um að gefa upp nafn og kennitölu en gáfust fljótlega upp og héldu á brott eftir að hafa kynnt sér stöðuna og rætt við fólk á staðnum. 

Ómar Smári Ármannsson, stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, kom svo á staðinn eftir hádegi og kynnti sér stöðuna. Eftir að hafa verið um stund á svæðinu fylgdi hann öðrum gröfumanni verktakanna að gröfunni og tilkynnti mótmælendum að nú yrði önnur grafan færð þar sem hún myndi sinna verkefnum annars staðar um stund við fögnuð mótmælenda. Það er því ljóst að upp er komin pattstaða í hrauninu þar sem enginn virðist vera á þeim buxunum að gefa neitt eftir. 

Málshöfðun frestar ekki framkvæmdum


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert