Leikskóla lokað vegna myglusvepps

mbl.is/Kristján Kristjánsson

Húsnæði leikskólans Krakkaborgar í Flóahreppi hefur verið í athugun undanfarið vegna raka og hugsanlegrar myglu.

Í gær bárust niðurstöður frá Náttúrufræðistofnun Íslands þess efnis að myglusvepp sé að finna í húsnæði leikskólans, samkvæmt upplýsingum á vef Flóahrepps.

Leikskólastjórnendur, formaður fræðslunefndar, sveitarstjóri og oddviti hafa fundað um málið og tekin hefur verið ákvörðun um að loka leikskólanum í Þingborg um óákveðinn tíma og sérfróðir aðilar fengnir til ráðgjafar varðandi framhaldið.

Leikskólanum verður fundið bráðabirgðahúsnæði eins fljótt og unnt er og stefnt er að því að starfsmenn leikskólans geti tekið verði á móti börnunum hið allra fyrsta.

„Kapp verður lagt á að vinna hratt að framvindu máls og hefur foreldraráð, foreldrar, starfsmenn leikskólans, fræðsluyfirvöld og sveitarstjórn verið upplýst um stöðu mála,“ segir í tilkynningu á vef Flóahrepps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert