Of mikið um rangfærslur

Vegagerðin segir að í umræðum um lagningu nýs Álftanesvegar um Garðahraun hafi verið mikið um rangfærslur. Bent er á að í tvö skipti hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar; það fyrra árið 2000 og það seinna árið 2002.

„Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að umhverfismatið sé gilt vegna núverandi framkvæmdar,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá segir, að framkvæmdaleyfi sé einnig í gildi og hafi úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísað frá kæru vegna þess.

„Framkvæmdin fer fram í Garðahrauni en ekki í Gálgahrauni sem liggur allt norðan framkvæmdasvæðisins. Það er því ekkert hróflað við Gálgahrauni og alls ekki Gálgakletti.

Fyrir seinna matið á umhverfisáhrifum vissu fáir að í hrauninu væri að finna mótíf fyrir listaverk Jóhannesar S. Kjarvals en það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem fyrir tilviljun áttuðu sig á tilvist þeirra. Þess vegna var um þau fjallað í seinna umhverfismatinu en aldrei hefur staðið til að vegurinn lægi þar sem mótífin er að finna.

Þessi veglína hefur verið á skipulagi hjá Garðabæ síðan árið 1995 og var það áréttað með samþykkt nýs aðalskipulags 2004-2016,“ segir Vegagerðin.

Tekið er fram, að sýslumaður hafi synjað kröfu um lögbann á framkvæmdina á grunni aðildarskorts. Það hafi kært til héraðsdóms en vegna krafna lögmanna Hraunavina um að fá ráðgefandi álit EFTA dómstólsins megi búast við að það geti tekið mánuði og jafnvel ár að leiða það til lykta.

„Það er svo ekki þar með sagt að fallist yrði á lögbann þótt aðild yrði viðurkennd. Lögbann er flýtimeðferð máls svo að það kemur á óvart að sóst sé eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins, sem hlýtur að tefja málið verulega.

Það er meginregla íslensk réttarfars að höfðun dómsmáls frestar ekki framkvæmdum. Mótmælendur í Garðahrauni eru því ekki í neinum rétti,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá segir, að það sem sé nýtt í málinu er að frá fyrra umhverfismatinu séu komin ný lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Samkvæmt hinum nýju lögum úrskurði Skipulagsstofnun ekki í málum sem þessum en gefi í stað þess álit sitt á framkvæmdinni. Þótt Skipulagsstofnun mæli gegn framkvæmd þá geti sveitarfélag heimilað framkvæmdina en verði að rökstyðja þá ákvörðun sína

Í lok tilkynningarinnar segir, að dómsstólar muni einungis skera úr um réttmæti málsmeðferðarinnar en ekki um legu vegarins.

„Ef vilji Garðabæjar er einbeittur að leggja Álftanesveg á þeim stað sem nú er fjallað um þá leiða yfirstandandi mótmæli einungis til einhverrar frestunar á framkvæmdum og mikils tjóns fyrir alla aðila en fá engu breytt um lokaniðurstöðu málsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert