Ber virðingu fyrir samkynhneigðum en vill ekki að þeir gangi í hjónaband

Bandaríski prédikarinn Franklin Graham.
Bandaríski prédikarinn Franklin Graham. mbl.is/Kristinn

Bandaríski prédikarinn Franklin Graham kveðst aldrei hafa sýnt samkynhneigðum annað en virðingu. Hann lítur ekki á sig sem óvin þeirra en vill ekki að þeir gangi í heilagt hjónaband. Það sé ekki Guðs vilji. Graham mun prédika á Hátíð vonar í Laugardalshöllinni um helgina.

„Það er svo merkilegt að allan minn feril sem prédikari hef ég aldrei sótt samkomur samkynhneigðra til að mótmæla. Ég hef aldrei sýnt samkynhneigðum neitt nema virðingu. Eigi að síður verð ég að virða reglurnar sem Guð setti okkur mönnunum. Ég veit að þið hafið yndi af knattspyrnu í þessu landi og hvernig væri að leika knattspyrnu án reglna? Þetta er sami hluturinn. Guð talar enga tæpitungu, hjónaband er á milli karls og konu. Það eru reglur Guðs eins og þær blasa við okkur í hinni helgu bók. Bók sem ég er sannfærður um að sé sönn spjaldanna á milli. Mislíki samkynhneigðum orð mín er ekki við mig að sakast. Þeir verða að taka málið upp við Guð sjálfan. Það er ekki til neins að skjóta sendiboðann.
Enda þótt ég sé ósammála samkynhneigðum varðandi hjónabandið þýðir það ekki að ég sé óvinur þeirra. Síður en svo. Við erum bara ósammála. Það er daglegt brauð í mannlegum samskiptum," segir hann í samtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Í samtalinu segir Graham Vesturlandabúa í ríkum mæli hafa snúið baki við Guði og vill kynna okkur Íslendinga aftur fyrir Guði feðra okkar. Þá kveðst hann um tíma sjálfur hafa verið á sama stað og rokkarinn sálugi Kurt Cobain. Það var tóm að fylla í hans lífi og þá reyndi á Guð almáttugan. „Það eina sem getur fyllt upp í þetta tóm er Guð.“

Prédikarinn víkur orðum að föður sínum, Billy Graham, sem er enn að, hálftíræður. Hann segir föður sinn við góða heilsu miðað við aldur og hann hafi nýlokið við bók með nýju efni. Mögulega sína bestu frá upphafi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert