Sprengjugengið verðlaunað

Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís 2013 fyrir vísindamiðlun.
Sprengjugengið hlaut viðurkenningu Rannís 2013 fyrir vísindamiðlun. mbl.is/Golli

Sprengjugengi Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu Rannís 2013 fyrir vísindamiðlun. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti  Sprengjugenginu viðurkenninguna við opnun Vísindavöku í dag.

Sprengjugengið samanstendur af hópi nemenda í efnafræði, efnaverkfræði og lífefnafræði við Háskóla Íslands sem hafa stundað  kynningar og sýningar á undraheimi efnafræðinnar fyrir almenning síðan 2007. 

Í fréttatilkynningu segir að kynningar og sýningar hópsins séu í senn fræðandi og skemmtilegar og til þess fallnar að örva áhuga ungmenna og almennings á efnafræði og skyldum raungreinum.  Starfsemi hópsins hefur færst jafnt og þétt í aukana síðan 2007 og hefur frá upphafi verið í miklu og góðu samstarfi við skipuleggjendur Vísindavöku.

„Sprengjugengið er ekki bara skemmtilegt, heldur leggur það einnig mikla áherslu á að flétta inn skýringar á hinum ýmsu eðlisfræðilegum og efnafræðilegum eiginleikum sýningaratriða sem og að tengja fræðin við hversdagsleg fyrirbæri.   Hópurinn hefur haldið sýningar víða um land í skólum, félagsmiðstöðum, komið fram í fjölmiðlum og ýmsum samkomum.  Þá hefur hann  lagt sig fram við að vinna með börnum á grunnskólastigi í Háskóla unga fólksins og víðar,“ segir í fréttatilkynningu.

Það er álit dómnefndar Rannís að Sprengjugengið,  undir forystu Katrínar Lilju Sigurðardóttur, framhaldsnema í efnafræði, sé einstaklega vel að viðurkenningu fyrir vísindamiðlun komið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert