Regnbogamessa í Laugarneskirkju

Regnbogafáni blaktir nú við hún fyrir utan Laugarneskirkju.
Regnbogafáni blaktir nú við hún fyrir utan Laugarneskirkju. Sigurvin Lárus Jónsson

„Okkur langar bara að opna dyrnar fyrir þeim sem ekki eru boðnir á þessa hátíð, sem er hinsegin fólk. Við tökum mjög skýra afstöðu, þetta er ekki í okkar nafni sem þessi maður er að tala,“ segir Sigurvin Lárus Jónsson, prestur Laugarneskirkju, en kirkjan leggur ekki nafn sitt við heimsókn Franklins Grahams á Hátíð vonar sem nú fer fram í Laugardalshöll og mótmælir guðfræði hans.

Regnbogafáni blaktir nú við hún fyrir utan kirkjuna og hefur gert síðan í morgun. Sigurvin Lárus sækir ekki Hátíð vonar, né þeir sem standa að þessari ályktun í sóknarnefnd kirkjunnar.

Í kvöld, sunnudagskvöldið 29. september, kl. 20.00 verður haldin regnbogamessa í Laugarneskirkju. Um er að ræða guðsþjónustu þar sem hinsegin fólk og ástvinir þess eru sérstaklega boðin velkomin til kirkju. Yfirskrift messunnar er: Fögnum fjölbreytileika - krefjumst mannréttinda. Sigurvin Lárus sér um messuna og aðalræðumaður kvöldsins verður Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir. Aðalbjörg, sem er fomaður sóknarnefndar, mun þar segja opinberlega í fyrsta sinn sögu föður síns, Helga Jósefssonar Vápna, en hann var um tíma forstöðumaður hvítasunnukirkjunnar á Vopnafirði, kom út úr skápnum á miðjum aldri og tók líf sitt m.a. sökum fordóma sem hann mætti meðal trúsystkina sinna. Þá mun Hinsegin kórinn syngja í kirkjunni.

Boðskapur kristinna manna um að samkynheigð sé synd veldur gríðarlegri þjáningu

„Það er sannfæring mín að sá boðskapur kristinna manna í samtímanum að samkynhneigð sé synd sé valdbeiting og mannréttindabrot. Sú afstaða réttlætir og veldur gríðarlegri þjáningu í heiminum og kyndir undir ofsóknum og ofbeldi á hendur hinsegin fólki. Í ljósi sögunnar mun hún flokkast með stuðningi kirkna við þrælahald, kynþáttaaðgreiningu (apartheid) og kvenfyrirlitningu,“ segir Sigurvin Lárus í prédikun sinni sem lesa má á tru.is.

Þá segir einnig í prédikuninni: „Um þessa helgi njótum við heimsóknar manns sem hefur gríðarleg völd, en hann er erfingi eins farsælasta sjónvarpstrúboðs sögunnar og er metinn á annan milljarð íslenskra króna. Enda hafa auglýsingar og íburður komu hans borið þess merki. Þjóðkirkjan hefur auglýst þennan viðburð, nokkrir þjóðkirkjusöfnuðir taka þátt í hátíðinni og hann segist í kastljósviðtali vera hér í boði 80% kirkna landsins (Kastljós 27. september 2013). Þær kirkjur hafa ekki verið uppgefnar en sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju hefur lýst því yfir opinberlega að hann er ekki hér í okkar boði og við leggjum ekki nafn okkar við þann boðskap sem hann prédikar. Guðfræði þessa manns er amerísk bókstafshyggja sem er íslensku þjóðkirkjunni fullkomlega framandi, menningarlega, stjórnmálalega og guðfræðilega.“

Laugarneskirkja tekur skýra afstöðu.
Laugarneskirkja tekur skýra afstöðu. Sigurvin Lárus Jónsson
Laugarneskirkja í dag.
Laugarneskirkja í dag. Sigurvin Lárus Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert