Leit hætt í dag

Björgunarsveitarmenn að störfum. Úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Úr safni. mynd/Landsbjörg

„Við erum hætt í dag,“ sagði Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Hvolsvelli, spurður út í leitina að bandarískum ferðmanni á Fjallabaki. Vel á annað hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í dag, en hún hófst kl. 9 í morgun og lauk nú um kl. 21. 

Þá aðstoðaði þyrla Landhelgisgæslunnar við leitina til klukkan 18 í kvöld. Þá var notast við fisvélar og leitarhunda. 

Björgunarsveitarmenn eru nú á leið til byggða og til síns heima og má reikna með að kvöldið fari í það, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

„Við erum eiginlega á sama punkti og við vorum í gærmorgun,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is um leitina að 34 ára gömlum ferðamanni frá Bandaríkjunum. Þá segir Sveinn að það standi ekki til að halda áfram leit á morgun, en hann tekur þó fram að formlegri leit sé ekki lokið.

Veðurspá fyrir svæðið næstu daga er óhagstæð, hún og aðstæður á svæðinu valda því að ekki eru miklar líkur á árangri auk þess sem svæðið hefur verið leitað nokkuð vel. 

Maðurinn, sem heitir Nathan Foley-Mendelssohn, ætlaði að ganga Laugaveginn frá Landmannalaugum og Fimmvörðuháls að Skógum. Hann lagði af stað frá Landmannalaugum hinn 10. september sl., en ekkert hefur spurst til hans síðan þá.

Þetta var í fyrsta sinn sem hann heimsækir Ísland. Hann var búinn að ferðast hringinn í kringum landið og ætlaði að ljúka Íslandsferðalaginu með því að ganga Laugaveginn. Héðan ætlaði hann að fljúga til Barselóna á Spáni og síðan til Grikklands. Lögreglan segist hafa óljósar vísbendingar um það að hann hafi ætlað að yfirgefa landið 14. september.

Björgunarsveitarmenn fundu í dag tjald og bakpokahlífar. Sveinn segir að ekki sé hægt að staðfesta það að búnaðurinn hafi verið í eigu ferðamannsins, en búnaðurinn verði hins vegar rannsakaður og það kannað til hlítar hvort hægt sé að tengja búnaðinn við ferðamanninn.

Sveinn segir að leitarsvæðið nái frá Landmannlaugum að Álftavatni. „Þetta eru hátt í þúsund ferkílómetrar, held ég,“ segir Sveinn.

Aðspurður segir Sveinn að maðurinn, sem er frá Kaliforníu, sé að öllum líkindum látinn. 

Nathan Foley-Mendelssohn.
Nathan Foley-Mendelssohn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert