Mikil bjartsýni að búast við öðru en niðurskurði

Búist er við meiri niðurskurði í heilbrigðisþjónustu.
Búist er við meiri niðurskurði í heilbrigðisþjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef verulegar áhyggjur af stöðunni, eins og Björn er að gefa til kynna, að það eigi að skera meira niður eða standa í stað. Það mun án efa hafa rosalega áhrif á starfsemi spítalans og hann má eiginlega ekki við því. Þá stefnir það öryggi sjúklinga í hættu og mun hafa áhrif á starfsfólkið og allan aðbúnað,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður félags hjúkrunarfræðinga. Hann segist skilja að Björn Zoëga hafi hætt störfum sem forstjóri Landspítalans og telur hann hafa staðið sig vel við gríðarlega erfiðar aðstæður.

„Það varð auðvitað ákveðinn trúnaðarbrestur milli hans og starfsmanna í vetur vegna launamála, en það er ekkert skylt þessu máli. Við berum traust til hans og ég skil afstöðu hans vel enda hefur verið erfiður andi á spítalanum og mikil óánægja hjá starfsfólki spítalans,“ segir Ólafur.   

„Manni heyrist að það eigi að skera meira niður samkvæmt öllum fréttum. Þetta verður krefjandi en skemmtilegur vetur, sem verður þó mjög erfiður, bæði í rekstri heilbrigðisþjónustunnar og í gerð kjarasamninga. Ég vona auðvitað að það verði gefið í, í sambandi við heilbrigðiskerfið í heild og ég ætla að vona að það verði þannig, en það er mikil bjartsýni að halda það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert