Dró konuna út úr bílnum

Talsverður viðbúnaður var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi vegna ökumanns sem ók glæfralega og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Maðurinn hafði nokkru áður ekið á aðra bifreið á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Selásbrautar skammt frá Rauðavatni.

Bifreið mannsins var óökufær eftir áreksturinn samkvæmt heimildum mbl.is. Eftir áreksturinn gekk hann yfir að hinni bifreiðinni og vildi að konan sem ók henni kæmi út úr henni. Konan neitaði og dró maðurinn hana þá út úr bifreiðinni. Því næst settist hann sjálfur undir stýri og ók á brott eftir Breiðholtsbrautinni í vesturátt.

Lögregla veitti manninum eftirför á hinni stolnu bifreið og fór annað framdekkið undan bifreiðinni skammt frá Álfabakka. Ökumaðurinn hélt engu að síður áfram ferðinni og tókst lögreglu að lokum að stöðva hann á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg. Maðurinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu.

Ekki liggur fyrir hvað olli framferði ökumannsins.

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert