Ísland getur orðið „fyrirmyndarland“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísland hefur alla burði til að verða fyrirmyndarland, þar sem allt er eins og best verður á kosið. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í stefnaræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Hann sagði hindranir á veginum, en tækifærin væru slík að þau hljóti að blása okkur kraft og þor í brjóst.

Forsætisráðherra bað áheyrendur að ímynda sér fyrirmyndarland sem hann lýsti svo sjálfur og dró upp kunnuglega mynd: 

Sjálfstæðir Íslendingar eigin gæfusmiðir

„Slíkt land væri á besta hugsanlega stað á hnettinum, á skilum Evrópu og Norður-Ameríku. Það væri í norðri, á þeim stað á heimskringlunni sem stendur best að vígi þegar litið er til breytinga í náttúrunni, til samgangna, mannfjöldaþróunar, matvælaframleiðslu og öryggis. Landið væri eyja með skýr landamæri frá náttúrunnar hendi og byggð af einni þjóð með sambærilegt gildismat, herlausri þjóð sem býr samt við meiri frið og meira öryggi en flestallar þjóðir heims. Þjóðin í þessu ímyndaða fyrirmyndarlandi er ekki fjölmenn og hefur því nóg til skiptanna. Landið og sjórinn eru rík af þeim náttúruauðlindum sem verða eftirsóttastar til framtíðar. Landrými er nægt, loftið og vatnið er hreint og náttúrufegurðin einstök.“

Forsætisráðherra hélt áfram og sagði m.a. að í fyrirmyndarlandinu væru allir fæddir jafnréttháir. Öllum væri tryggð besta mögulega heilbrigðisþjónusta og menntun, mannréttindi væru þar í hávegum höfð, menningarlífið fjölbreytt o.s.frv.

„Flestum jarðarbúum þætti þessi lýsing á landi sjálfsagt hljóma eins og fjarlæg „útópía“, óraunverulegt ævintýraland. En fyrir okkur Íslendinga er þetta ekki svo fjarlægt [...] Eða telur einhver að eitthvað af því sem ég taldi upp geti ekki orðið raunin á Íslandi?“ spurði Sigmundur Davíð.

Hann sagði þessa þróun hins vegar ekki sjálfgefna. Íslendingar gætu nálgast þessa mynd, eða fjarlægst hana. „En það hvort verður höfum við í hendi okkar. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð og því fylgir að við erum okkar eigin gæfu smiðir.“

„Fjárlögin lýsa upphafi sóknar“ 

Sigmundur Davíð sagði að fyrstu hindranirnar sem ryðja þurfi úr vegi séu þær sem felast í efnahagslegri stöðnun og skuldasöfnun. Hann sagði fjárlögin sem kynnt voru í gær lýsa upphafi sóknar.

„Þau boða lækkandi skuldir um leið og hafist er handa við endurreisn grunnstoðanna, heilbrigðisþjónustu og annarra velferðarmála. Álögur á millitekjufólk og lágtekjufólk eru minnkaðar og fyrri skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja afnumdar. Grunnur er lagður að vexti, fjárfestingu, atvinnusköpun og kjarabótum.“

Hann vék að afnámi hafta og sagði það sameiginlegt hagsmunamál allra. Þá væri almenn skuldaniðurfelling réttlætismál, en myndi þó ekki leysa vanda allra og því væri nauðsynlegt að huga að fleiri úrræðum og byggja upp húsnæðiskerfi sem nýtist öllum.

Sigmundur Davíð sagði að fjárfesting verði að aukast til mikilla muna á Íslandi og því vinni ríkisstjórnin að því að skapa hér þær aðstæður að gott verði að stofna fyrirtæki. Lífeyrissjóðirnir þurfi að taka aukinn þátt í fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.

Hann benti á að kaupmáttur hafi aukist meira á Íslandi en í nokkru evrulandi og atvinnuleysi væri sömuleiðis orðið með því minnsta í Evrópu. „Krónuna þarf þó að laga,“ sagði forsætisráðherra. „Hún þarf að virka eins fyrir alla og stuðla að aga í ríkisfjármálum.“

Þá sagði Sigmundur Davíð að ekkert ætti nú að vera að vanbúnaði að hefja mikla fjárfestingarsókn í íslenskum sjávarútvegi.

„Þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi“

Forsætisráðherra sagði að smæð þjóðarinnar geti veitt möguleika sem stærri ríki skortir. Lítið samfélag eigi til dæmis auðveldara með að vinna samhent að sameiginlegri framtíðarsýn. Slíkt geti þegar upp er staðið reynst okkur Íslendingum ákaflega gæfuríkt.

„En þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Íslandssagan í meira en 1100 ár sýnir að þegar við Íslendingar höfum trú á landinu okkar og okkur sjálfum og þegar okkur auðnast að standa saman en látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt, þá farnast okkur vel.“

Forsætisráðherra sagði þessa 300.000 manna þjóð nú standa frammi fyrir tækifæri til að gera Ísland að sannkölluðu fyrirmyndarlandi. „Framfarasinnuðu landi þar sem hugað er að velferð allra, þar sem auðlindir eru nýttar í sátt við náttúruna og samheldið og hamingjusamt fólk lifir í öryggi alla sína daga.

Að því skulum við vinna, þingmenn hvar í flokki sem við stöndum, með djörfung og reisn, með trú á framtíð Íslands að leiðarljósi.“

Þingmenn hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra.
Þingmenn hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ráðherrar hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.
Ráðherrar hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert