Kyrrstöðuframtíð í fjárlagafrumvarpi

Steingrímur J. Sigfússon blaðar í fjármálafrumvarpinu á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon blaðar í fjármálafrumvarpinu á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherrar, Bjarni Benediktsson og Steingrímur J. Sigfússon, mættust í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og ræddu fjárlagafrumvarpið. Steingrímur fagnaði markmiðinu um hallalaus fjárlög en segir framtíðarhorfurnar dapurlegar.

„Ég er ánægður með að menn reyna að halda í takmarkið um hallalaus fjárlög. Það er að vísu bara rétt á núllinu, en að þessu höfum við stefnt frá 2011 og unnið að því hörðum höndum að koma ríkinu upp í núllið,“ sagði Steingrímur í samtali við Sigurjón M. Egilsson í morgun.

Óviðunandi að hjakka í sama farinu

Steingrímur sagði hinsvegar nauðsynlegt að reyna jafnframt að hlúa að uppbyggingu og vexti, m.a. með því að styðja áfram við nýsköpun, ferðaþjónustu og skapandi greinar. Hann sagði of lítinn metnað fyrir því hjá nýrri ríkisstjórn.

„Ég er langdaprastur þegar ég les horfurnar inn í framtíðina. Það er óviðunandi að við hjökkum í sama farinu næstu þrjú ár með ríkissjóð um það bil á núlli, sem þýðir að já, við erum vissulega ekki að safna skuldum, en við erum heldur ekki að borga þær niður. Og ef við erum á núllinu þá verða þessi rök bara áfram, að við höfum engan afgang þannig að við getum ekkert gert.

Það væri allt of mikil kyrrstöðuframtíð að sætta sig við að þetta eigi að verða okkar örlög, að hjakka í sama farinu í þrjú ár,“ sagði Steingrímur.

Skiljanlegt að Landspítalafólk sé í áfalli

Í sambandi við fjárlögin nefndi Steingrímur m.a. Landspítalann og sagðist skilja það vel að starfsfólk þar væri í áfalli. „Því þeim var gefið undir fótinn svo myndarlega fyrir kosningarnar. Var það ekki Framsóknarflokkurinn sem boðaði 11-13 milljarða inn í Landspítalann einan?“

Steingrímur viðurkenndi hinsvegar að heilbrigðismálin séu ein þau allra viðkvæmustu og fyrri ríkisstjórn hafi glímt við þau allt síðasta kjörtímabil. „Og við bökkuðum nú yfirleitt í afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og reyndum að milda alltaf aðgerðirnar í heilbrigðiskerfinu eins og við gátum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á fundi kjördæmaráðs Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi í gær að fjárlögin mundu taka breytingum á næstu mánuðum og að ef 200 milljónir fyndust annars staðar yrði mögulega fallið frá fyrirhuguðum legugjöldum á Landspítalanum.

30 milljarða vaxtakostnaður vegna hallareksturs

Bjarni Benediktsson benti á móti á að á næsta ári biði ríkisins 30 milljarða vaxtakostnaður út af hallarekstri síðustu ár. Þess vegna væri það meginstef fjárlagagerðarinnar að loka fjárlagagatinu og hætta skuldasöfnun, og þar með hætta að bæta á vaxtabyrðina.

„Menn sjá í þessu samhengi sem við höfum verið að tala um, t.d. heilbrigðismálin, hvort sem það er varðandi gjöld vegna innlagnar, eða rekstrarvanda Landspítalans eða skurðstofur í einstaka sveitarfélögum [...], að bera þann vanda saman við það að við skulum vera að setja 30 milljónir í vexti vegna hallareksturs undanfarin ár. Þá átta menn sig vonandi á því hversu gríðarlega mikilvægt það er að loka nú fjárlagagatinu og horfa þannig fram á veginn,“ sagði Bjarni. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarpið 2014.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarpið 2014. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert