Bráðveikt og slasað fólk flutt milli húsa

Sneiðmyndatæki
Sneiðmyndatæki mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Varahlutur í bilaða sneiðmyndatækið á Landspítalanum í Fossvogi er kominn til landsins. Þegar viðgerð hófst kom þó í ljós að annars varahlutar var þörf og kemst tækið því ekki í lag fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Bilunin kom upp síðdegis á fimmtudag.

Á meðan þarf að flytja sjúklinga sem koma inn á bráðamóttökuna í Fossvogi yfir á Hringbraut, þurfi þeir á sneiðmyndatöku að halda. Um fjórðung allra sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi má rekja til bilunarinnar. 

Yfirlæknir geislagreiningar segir ástandið krítískt.

Þyrfti varatæki í Fossvoginn

Kjarni vandans er í raun ekki hið bilaða tæki heldur sú staðreynd að spítalinn er rekinn í tveimur húsum, sem þýðir að hitt tækið er á öðrum stað í borginni.

„Svona tæki geta alltaf bilað, það er óhjákvæmilegt með svona flókinn búnað, og þá myndast alltaf óviðunandi ástand á öðrum hvorum staðnum þegar ekkert tæki er í húsinu og flytja þarf sjúklinga á milli,“ segir Pétur H. Hannesson, yfirlæknir í Fossvogi.

„Við þyrftum sérstaklega að hafa annað tæki til vara í Fossvogi þar sem slysadeildin er þar. Þar koma bráðatilfellin inn. Það hafa verið erfið tilfelli sem við höfum þurft að flytja á milli húsa. Alvarlega slasað og bráðveikt fólk.“

10 sjúklingar fluttir á milli það sem af er degi

Frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fengust þær upplýsingar að það sem af væri degi hefðu um 10 sjúklingar verið fluttir frá Fossvogi á Hringbraut til sneiðmyndatöku. Um tvöleytið voru sjúkraflutningar dagsins alls 45 og mátti því rekja tæplega fjórðung tilfella til bilaða tækisins.

Þótt brjálað sé að gera segist slökkviliðið anna álaginu, enda séu þeir vel mannaðir og nýverið hafi bílum á dagvakt verið fjölgað um einn.

Síðast þegar sneiðmyndatæki Landspítalans bilaði tók tvær vikur að gera við það. Nýr varahlutur sem pantaður var í dag ætti að koma til landsins á morgun og segist Pétur vonast til að tækið verði lagað samdægurs.

Frétt mbl.is: Brjálað að gera vegna bilaðs tækis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert