Verða fyrir aðkasti vegna heyrnartækja

mbl.is

„Hingað kemur oft ungt fólk sem hefur orðið fyrir aðkasti og einelti vegna þess að það notar heyrnartæki,“ segir Ellisif Katrín Björnsdóttir, heyrnarfræðingur og framkvæmdastjóri Heyrnar ehf. Hún segir allt of marga bíða með að leita sér aðstoðar þegar heyrnin er farin að minnka og tækni og hönnun tækjanna fleygi fram. 

Fólk verður félagslega einangrað

Ellisif segist finna fyrir mikilli viðhorfsbreytingu í garð einstaklinga sem nota heyrnartæki. Þetta þakkar hún meðal annars þeirri þróun sem hefur orðið í gerð og hönnun tækjanna,  þau eru orðin betri, fallegri og fyrirferðarminni en áður. „Breytingin gerist þó ekki nógu hratt,“ segir hún. „Þetta eru svo frábær tæki og breyta miklu fyrir þá sem glíma við heyrnarskerðingu.“

Hún segir að margir bíði of lengi með að láta kanna heyrnina og skorti þá ákveðin lífsgæði vegna heyrnarskerðingar. Fólk verði félagslega einangrað vegna heyrnarskerðingarinnar, það veigri sér við því að fara út á meðal fólks og treysti sér ekki til að vinna öll störf. „Fólk virðist sumt vera staðnað í því að hugsa um eitthvað stórt tæki sem ýlfrar í,“ segir Ellisif. 

„Hingað kemur ungt fólk sem hefur orðið fyrir einelti og aðkasti vegna þess að það er með heyrnartæki. Þetta er eins og vera með gleraugu, það er ekki bara gamalt fólk sem notar þau,“ segir Ellisif.

Of margar bíða með að koma

Ellisif segir allt of marga bíða með að leita sér aðstoðar þegar heyrnin er farin að minnka. „Of margir hugsa, ég ætla að bíða með þetta þangað til ég verð gamall. Það er það versta sem þú gerir,“ segir hún. „Ef þú notar ekki heilastöðvarnar sem stjórna heyrninni, þá hætta þær að starfa. Því er mikilvægt að koma sem fyrst þegar þú ert farinn að hvá, þegar þú heyrir ekki það sem er í gangi í kringum þig.“

Hún segir marga viðskiptavini koma af fjöllum þegar hún kynnir þá fyrir nýjustu tækni í heyrnartækjum, flestir geri sér ekki grein fyrir því hversu langt þróunin er komin. Þá er meðal annars hægt að tengja heyrnartækin við aðra hljóðgjafa og stjórna heyrnartækinu í gegnum appa í iphone og ipad.

„Möguleikarnir eru orðnir svo ótrúlega miklir,“ segir Ellisif. Þeir sem hlusti oft á fyrirlestra, í tengslum við vinnu eða skóla, geti fest hljóðnema við fyrirlesarann og þá berst hljóðið beint í heyrnartækin, jafnvel þó að einstaklingurinn sitji nokkra metra frá fyrirlesaranum.

Heyrnartæki eru mikil fjárfesting en þá þarf einnig að hafa í huga að tæki eru gjarnan mikið notuð, á hverjum degi í mörg ár. Því er mikilvægt að velja réttu tækin og fá leiðsögn svo þau nýtist sem best.

Þurfa ekki að bíða eftir heyrnartækjunum

Fyrirtækið Heyrn ehf. þjónustar einstaklinga, 18 ára og eldri, sem þurfa á heyrnartækjum að halda vegna skertrar heyrnar. Þangað koma einstaklingar í heyrnarmælingu og síðan eiga þeir kost á að kaupa heyrnartæki hjá fyrirtækinu í kjölfarið. Lögð er áhersla á að bjóða upp á nýjustu og bestu tækni í heyrnartækjum sem völ er á hverju sinni.

Ellisif segir að viðskiptavinir Heyrnar ehf. þurfi yfirleitt að bíða í eina viku eftir tíma í heyrnarmælinu en engin bið er eftir heyrnartækjum, ef þörf er á þeim. Heyrnartækin eru niðurgreidd af ríkinu, 60 þúsund krónur fyrir parið. Að sögn Ellisifjar hefur upphæðin ekki hækkað síðan árið 2006.

Ellisif Katrín Björnsdóttir.
Ellisif Katrín Björnsdóttir.
Heyrnartæki sem Heyrn ehf. býður upp á.
Heyrnartæki sem Heyrn ehf. býður upp á.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert