Bæta þarf bólusetningu við 12 mánaða og 4 ára aldur

Tilgangurinn með bólusetningagrunninum er fyrst og fremst að fylgjast með …
Tilgangurinn með bólusetningagrunninum er fyrst og fremst að fylgjast með þátttöku í bólusetningum á Íslandi og meta hættuna á að upp komi faraldrar sjúkdóma sem bólusett er gegn. mbl.is/Árni Sæberg

Þátttaka í almennum bólusetningum hér á landi árið 2012 var um og yfir 90% sem er ásættanlegt að mati Landlæknisembættisins nema í bólusetningum við 12 mánaða aldur (88% fyrir allt landið) og við 4 ára aldur (82% fyrir allt land).

Þetta kemur fram í skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi 2012 sem sóttvarnalæknir hefur tekið saman. Þetta er í fyrsta sinn sem gefin er út heildræn skýrsla um bólusetningar hér á landi.

Uppgjörið byggir á upplýsingum úr bólusetningagrunni sóttvarnalæknis en í hann flytjast rafrænt allar skráðar bólusetningar á landinu. 

Í skýrslunni segir, að þátttakan sé misjöfn eftir bóluefnum og eins eftir landssvæðum (sóttvarnasvæðum). „Segja má að þátttakan sé að mestu leyti ásættanleg nema hvað varðar bólusetningar við 12 mánaða og 4 ára aldur,“ segir á vef Landlæknisembættisins.

Fram kemur í skýrslunni, að á næstunni verði sendir nafnalistar til heilsugæslunnar um þá einstaklinga sem séu óbólusettir samkvæmt bólusetningagrunni. Þannig verði hægt að hafa uppá óbólusettum einstaklingum og bjóða þeim bólusetningu og einnig verði hægt að lagfæra vanskráningu í grunninum ef um slíkt sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert