Afgani á óræðum aldri í 30 daga fangelsi

AFP

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi afganskan ríkisborgara í 30 daga fangelsi fyrir skjalafals, en hann framvísaði í blekkingarskyni breytifölsuðu vegabréfi við landamæralögreglu í flugstöð Leifs Eiríkssonar í lok ágúst.

Maðurinn, sem er sagður vera fæddur árið 1996 var á leiðinni til Toronto í Kanada þegar hann framvísaði falsaða vegabréfinu, en samkvæmt því var hann Suður-Kóreumaður fæddur árið 1990.

Afganinn játði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að í málinu liggi ekki fyrir sakavottorð. Engar upplýsingar liggi fyrir um það hvort maðurinn hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Varðandi aldur mannsins segir í dómi héraðsdóms: „Í gögnum málsins liggur fyrir rannsókn tannfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar ákærða. Segir í matinu: „Við mat á aldri af aðstæðum í munni og klínískri reynslu teljum við hann geti verið á aldursbilinu 25-35 ára.“  Þá segir einnig í forsendum: „Allir endajaxlar eru fullmyndaðir og með lokaðar rætur og samkvæmt aðferð Kullman með þroskastig Ac eða 7, og aldurinn því a.m.k. 19.2 ár og staðalfrávik 1.0 ár. Samkvæmt aðferð Liversidge er aldurinn 19.53 ár og staðalfrávik 1.08 ár og aðferð Mincer 20.35 ár og staðalfrávik 2.03 ár. Ef tekin eru meðaltöl þessara þriggja aðferða fæst að aldurinn er að minnsta komist 19.7 ár og staðalfrávik 1.4 ár.“ Í niðurstöðum matsins segir að það sé mat þeirra að ákærði sé eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Telja þeir nánast útilokað að uppgefinn aldur, sautján ár og tveir mánuðir standist.“

Loks segir, að með hliðsjón af ofangreindu og þrátt fyrir staðalfrávik manninum í hag, verði að telja að hann sé allavega orðinn átján ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert