Clinton meðal þátttakenda á ráðstefnu í Hörpu

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Nýr alþjóðlegur vettvangur, Arctic Circle – Hringborð Norðurslóða, heldur fyrsta þing sitt í Hörpu dagana 12.-14. október. Meðal þátttakenda eru Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels og Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þau flytja ávörp sem tekin verða upp fyrir ráðstefnuna.

Þingið munu sækja yfir 900 þátttakendur, m.a. fjölmargir forystumenn í þjóðmálum, alþjóðastofnunum, vísindum, viðskiptum og umhverfismálum frá um 40 löndum, einkum ríkjum Norðurslóða og löndum í Evrópu og Asíu, segir í frétt frá embætti forseta Íslands.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur ásamt hópi forystufólks í málefnum Norðurslóða haft frumkvæði að stofnun Arctic Circle og var þessi nýi vettvangur fyrst kynntur á blaðamannafundi í National Press Club í Washington í apríl.

Meðal ræðumanna á þingi Arctic Circle verða Aleqa Hammond forsætisráðherra Grænlands og Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, bandarísku öldungadeildarþingmennirnir Lisa Murkowski og Tom Harkin, Eric Schmidt stjórnarformaður Google, Yunpeng Li forstjóri kínverska skipafélagsins COSCO, Scott Minerd, forstjóri Guggenheim fjárfestingasjóðsins, Artur Chilingarov, sérlegur sendimaður forseta Rússlands Vladimirs Putins í málefnum Norðurslóða, Michel Rocard, fyrrum forsætisráðherra Frakklands og sendimaður Hollande Frakklandsforseta og Strobe Talbott, forstjóri Brookings stofnunarinnar í Washington.

Þá munu Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rajendra K. Pachauri, formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, og Albert II, fursti í Mónakó, flytja ávörp sem tekin voru upp fyrir ráðstefnuna.

Heimsþekktir vísindamenn

Fjöldi þekktra vísindamanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi sem og fulltrúar almannasamtaka og frumbyggjasamfélaga mun flytja ræður og taka þátt í umræðum á Arctic Circle. Í þeim hópi eru til dæmis stjórnendur heimsþekktra vísindastofnana eins og Heimskautastofnunar Kína og Alfred Wegener stofnunarinnar í Þýskalandi.

Sérfræðingar, kennarar og nemendur frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Bifröst munu einnig taka þátt í þinginu sem og fjölmargir fulltrúar íslenskra fyrirtækja og stofnana, m.a. skipafélaga og verkfræðifyrirtækja.

Meðal umræðuefna á Arctic Circle verða loftslagsbreytingar á Norðurslóðum og áhrif þeirra á veðrakerfi í öðrum heimshlutum, nýjar siglingaleiðir og uppbygging hafna, orkunýting, öryggismál, Norðurslóðaréttur og Hafréttarsáttmálinn, viðskiptasamvinna og fjárfestingar, rannsóknarverkefni og vísindasamstarf, ferðaþjónusta á Norðurslóðum sem og málefni og réttindi frumbyggja. Þá verða einnig sérstakar kynningar á framlagi Alaska, Grænlands, Singapúrs og Suður-Kóreu til þróunar á Norðurslóðum.

Sérstakar málstofur verða um hvernig samstarf á Norðurslóðum gæti orðið fyrirmynd ríkja á Himalajasvæðinu og munu margir áhrifamenn og sérfræðingar frá ríkjum Himalajasvæðisins taka þátt í Arctic Circle.

Fjölmörg samtök og stofnanir verða með sérstakar málstofur á þinginu þar sem fjallað verður um ýmsar hliðar samstarfs á Norðurslóðum og helstu verkefni næstu ára.

Þá hafa margar rannsóknarstofnanir, samtök og fyrirtæki gerst aðilar að Arctic Circle og má þar nefna sem dæmi: Google, National Geographic, Rússneska landfræðifélagið, Heimskautastofnun Kína, Brookings stofnunina í Washington, Carnegie í New York, Aspen stofnunina á Indlandi, COSCO skipafélagið, sjóðinn Skoll Global Threats Fund, Greenpeace, World Ocean Council, The Climate Reality Project sem Al Gore stofnaði, World Wildlife Fund, Institute of the North svo og ýmsar stofnanir og fyrirtæki á Íslandi og í öðrum Norðurslóðaríkjum.

Nánari upplýsingar um Arctic Circle má nálgast á vefsíðunni www.ArcticCircle.org

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert