Einstök börn fengu 2,8 milljónir frá viðskiptavinum

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Einstakra barna, …
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Einstakra barna, og Hörður Björgvinsson, starfsmaður hjá Einstökum börnum.

Á hverju ári fá tjónlausir og skilvísir viðskiptavinir í Stofni hjá Sjóvá hluta iðgjalda sinna endurgreiddan. Síðustu ár hefur viðskiptavinum gefist kostur á að ráðstafa hluta eða allri endurgreiðslunni til tiltekins góðgerðamáls og urðu Einstök börn fyrir valinu í ár. Um 1.300 manns ákváðu að verja endurgreiðslunni með þessum hætti og söfnuðust 2,8 milljónir króna.

 Í gær, mánudag, afhenti Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár fulltrúum Einstakra barna framlag viðskiptavina á skrifstofu Einstakra barna við Háaleitisbraut 13, en þar er eins konar miðstöð ýmissa hagsmunasamtaka einstaklinga með sértæka sjúkdóma. Upphæðin rennur til Styrktarsjóðs Einstakra barna, segir í fréttatilkynningu.

 Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Félagið var stofnað árið 1997 af 15 fjölskyldum, foreldrum veikra barna. Síðan þá hefur félagið vaxið og dafnað enda þörfin mikil. Í félaginu eru nú um 220 fjölskyldur, en markmið félagsins er m.a. að skapa sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag langveikra barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert