Fleiri tilkynningar vegna ofbeldis

Margt má betur fara í málefnum innflytenda í Hafnarfirði samkvæmt …
Margt má betur fara í málefnum innflytenda í Hafnarfirði samkvæmt nýrri skýrslu samráðshóps. Rax / Ragnar Axelsson

Hlutfall tilkynninga til barnaverndar vegna ofbeldis er hærra hjá börnum innflytjenda en hjá öðrum börnum í Hafnarfirði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu samráðshóps um málefni innflytjenda í Hafnarfirði sem lögð var fram á fundi fræðsluráðs í gær. Hópnum var falið að safna upplýsingum um stöðu innflytjenda í Hafnarfirði og koma með tillögur að bættri og samhæfðari þjónustu við þennan hóp íbúa.

Skortur á upplýsingum til foreldra

Ef marka má skýrslu samráðshópsins er víða pottur brotinn hvað varðar málefni innflytjenda í bænum. Þegar leitað var viðbragða innflytjenda við vinnslu skýrslunnar, bentu flestir á aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf, en þó reyndist erfitt að fá innflytjendur til að taka þátt í vinnslu skýrslunnar.

Engar upplýsingar um starfsemi leikskóla Hafnarfjarðarbæjar er að finna á heimasíðu bæjarins á öðrum tungumálum en íslensku. Það sama á við um heimasíður leikskólanna, en ef leikskólinn Norðurberg er frá talinn. Telur hópurinn mikilvægt að bærinn bæti upplýsingagjöf til foreldra leikskólabarna á heimasíðu sinni. Bent er á að margvíslegt upplýsingaefni hafi verið gefið út á átta tungumálum af Reykjavíkurborg.

Afar misjafnt er hversu hár kostnaður vegna túlkaþjónustu er eftir skólum. Tvítyngdir nemendur voru 10,4% af nemendafjölda í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar skólaárið 2012 til 2013 og tala þau 44 mismunandi tungumál. Í Áslandsskóla þurftu foreldrar tveggja barna túlka skólaárið 2012 til 2013, en foreldrar 37 barna í Hraunavallaskóla. Í skýrslunni kemur fram að kostnaður vegna túlkaþjónustu geti verið mjög íþyngjandi í sumum skólum og því hætta á að túlkar séu ekki pantaðir eins oft og í raun þyrfti.

Þá hafa deildarstjórar sérkennslu í grunnskólum bæjarins áhyggjur af líðan og námsárangri margra nemenda. Margir þeirra eiga við námslega og félagslega erfiðleika að stríða og þá hafa menningarlegir þætti áhrif á aðlögun.

Úrræði barnaverndar nýtast innflytjendum illa

Hlutfall tilkynninga til barnaverndar vegna ofbeldis og vanrækslu er hærra hjá börnum innflytjenda en öðrum börnum í Hafnarfirði, en hér er miðað við árin 2010, 2011 og 2012. Talið er að úrræði barnaverndar nýtist innflytjendum illa, en erfitt sé að fá starfsmenn sem tala tungumál foreldra. Hér er til dæmis átt við tilsjónarmenn sem aðstoða foreldra við að finna forsjár- og uppeldisskyldum sínum og persónulega ráðgjafa sem veita barni ráðgjöf. Samráðshópurinn telur að mikilvægt að tryggt sé að foreldrar séu upplýstir um skyldur sínar og réttindi barna sinna samkvæmt barnaverndarlögum

Tiltölulega fáir erlendir nemendur í Hafnarfirði sækja um nám í Flensborg eða Iðnskólanum í Hafnarfirði, en almennt hefur brottfall erlendra nemenda úr framhaldsskólum verið mjög hátt hér á landi undanfarin ár og mun færri erlend börn skrá sig í nám í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi en íslensk. Erfitt hefur reynst nemendum í starfsnámi við Iðnskólann í Hafnarfirði að fá samning hjá meistara vegna þess hve tengslanet fjölskyldunnar er lítið og þá virðist slök íslenskukunnátta vera hindrun.

Taka síður þátt í íþróttum og tómstundum

Íþróttaiðkun erlendra barna í Hafnarfirði er mun minni en íslenskra barna. Í skýrslunni kemur fram að þar virðist samskiptavandi við foreldra varðandi skráningar og lítil íslensku- eða enskukunnátta spila inn í. Einnig virðist vera erfitt að innheimta æfingagjöld hjá þessum hópi. Þá á þessi hópur oft erfitt með að taka þátt í keppnisferðum og fjáröflunum tengdum þeim þar sem tengslanet er lítið.

Mun færri fullorðnir einstaklingar sækja byrjenda- og framhaldsnámskeið í íslensku hjá Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði en áður virðast margir setja kostnaðinn fyrir sig. Þá er þátttaka erlendra barna í starfi félagsmiðstöðvam sumarstarfs og vinnuskóla lítil. Um það vil 80% erlendra barna í Hafnarfirði dveljast erlendis yfir sumarið og taka því ekki þátt í sumarstarfi.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðgjöfum í Reykjavík er mjög algengt að hafnfirskir innflytjendur leiti eftir ráðgjöf til Reyjkjavíkur þar sem slík þjónusta er ekki í boði í Hafnarfirði, en þjónustan er þó aðeins aðgengileg íbúum borgarinar.

Skýrsla samráðshópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert