Milljarður í nýja viðbyggingu MS

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra undirrituðu samkomulagið …
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra undirrituðu samkomulagið í gær.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur, undirrituðu í gær samning ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um viðbyggingu við Menntaskólann við Sund. Hann kveður á um viðbyggingu og endurbætur á húsnæði skólans við Gnoðarvog. 

„Í samræmi við yfirlýsingu milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar frá nóvember 2010 um samstarf í húsnæðismálum framhaldsskóla í borginni var ákveðið að farið yrði í brýnustu framkvæmdir við Menntaskólann við Sund. Þessar brýnustu framkvæmdir fela í sér stækkun skólans í samræmi við nemendafjölda auk bætts aðgengis mill álma skólans, sem eru frá ýmsum tímum, bætts aðgengis fyrir fatlaða með uppsetningu lyftu í húsið, bættri salernisaðstöðu og úrbóta vegna eldvarna,“ segir á vef menntamálaráðuneytisins.

Fram kemur að heildarhönnun viðbyggingarinnar sé nú lokið. Hún verður tveggja hæða og hálf þriðja hæð að Gnoðarvogi, einnar hæðar fjölnotasalur í miðju skólans, með mötuneyti fyrir bæði nemendur og starfsfólk og hluti viðbyggingarinnar er einnig þriggja hæða tengigangur milli tveggja núverandi bygginga. Í viðbyggingunni verða tvær lyftur, sem alveg hefur vantað í skólann. Auk nýrrar viðbyggingar verða framkvæmdar breytingar á um 850 m² í eldra húsnæðinu. Heildarstærð viðbyggingarinnar verður 2.832 m², þannig að heildarstærð alls skólahúsnæðisins verður eftir stækkun um 7.800 m².

„Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar, bæði nýja viðbyggingu og breytingar á eldra húsnæði eru um 1.1 milljarður kr., þar af eru byggingarframkvæmdir áætlaðar um kr. 870 m.kr. Kostnaðarskipting á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar er 60/40. Miðað er við að viðbyggingin verði tilbúin til innflutnings haustið 2015,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert