Nýr yfirlæknir ráðinn á lyflækningasviði

Friðbjörn Sigurðsson er ný yfirlæknir almennra lyflækninga á Landspítala.
Friðbjörn Sigurðsson er ný yfirlæknir almennra lyflækninga á Landspítala. mbl.is

Friðbjörn R. Sigurðsson hefur verið ráðinn yfirlæknir almennra lyflækninga á Landspítala, tímabundið frá 1. október 2013. Staðan verður síðan auglýst og miðað við að ráði verði í hana til 5 ára eigi síðar en 1. apríl 2014.

Þann 12. september tilkynntu Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítala, að gerðar yrðu breytingar á skipulagi lyflækningasviðs, en þar hefur verið viðvarandi læknaskortur sem gekk svo langt að virkja þurfti sérstaka aðgerðaráætlun í byrjun september.

Ný staða yfirlæknis almennra lyflækninga var meðal þeirra aðgerða sem læknar á spítalanum höfðu óskað eftir til að styrkja lyflækningasviðið.

Sem yfirlæknir almennra lyflækninga verður Friðbjörn einnig formaður sérstaks starfshóps lækna sviðsins, sem eiga að skila forstjóra og framkvæmdastjórn spítalans skriflegum tillögum um úrbætur fyrir 30. nóvember.

Starfshópinn skipa auk Friðbjörns Sigurðssonar læknarnir Hlíf Steingrímsdóttir, Runólfur Pálsson, Arna Guðmundsdóttir, Karl Andersen, Anna Björg Jónsdóttir og Margrét Jóna Einarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert