Skýrara hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að vinna við að losa um fjármagnshöftin hafi skilað þeim árangri að það sé orðið skýrara en áður hvað þurfi að gerast til að hægt sé að afnema þau.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigmund Davíð um hvort hann ætlaði að leggja fram nýja áætlun um afnám hafta eða hvort unnið yrði eftir þeirri áætlun sem lögð var fram í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Sigmundur Davíð sagði að eðli málsins samkvæmt væri ekki hægt að leggja fram nákvæma áætlun um afnám hafta. Unnið væri að málinu á vegum stjórnvalda. Fyrirhugað væri að þverpólitísk nefnd sem skipuð var á síðasta kjörtímabili um afnám hafta starfaði áfram og hún yrði upplýst um framgang mála, en hún hefði ekki fengið allar upplýsingar í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Sigmundur Davíð sagðist ennfremur fylgjandi því að við sölu á hlut í viðskiptabönkunum yrðu settar skorður um hvers stóran hlut einstakir hluthafar mættu eiga. Hann vildi hins vegar ekki svara því hversu stór hluturinn ætti að vera, en sagði eðlilegt að horfa til reynslu nágrannalandanna í þessu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert