Íslendingur með ólympíueldinn til norðurpólsins

Hafís við Norðurpólinn.
Hafís við Norðurpólinn. Morgunblaðið/Einar Falur

Steingrímur Jónsson prófessor við auðlindadeild Háskólans á Akureyri og sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun verður fulltrúi íslenskra vísindamanna á norðurpólnum þegar siglt verður með ólympíueldinn þangað.

Íslenska utanríkisráðuneytið var beðið af rússneskum yfirvöldum að tilnefna vísindamann til þátttöku í ferð með ísbrjótnum 50 Let Pobedy, sem sigla mun með ólympíueldinn frá Múrmansk í Rússlandi á norðurpólinn.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Steingrími að það hafi verið haft samband við hann og hann spurður hvort hann hefði áhuga á að fara. Að sögn Steingríms ákvað hann að slá til.

 Markmiðið með ferðinni er að vekja athygli á vetrarólympíuleikunum sem fram fara í febrúar 2014 í borginni Sochi í Rússlandi.

„Ætlunin er að hlaupið verði með ólympíueldinn á pólnum og það kemur minn hlut að hlaupa með hann einhvern spöl“segir Steingrímur í fréttatilkynningu.

Ísbrjóturinn 50 Let Pobedy er kjarnorkuknúinn og mun vera sá stærsti í heimi. Lagt verður af stað frá Múrmansk þriðjudaginn 15. október og mun siglingin á pólinn taka 5-6 daga en fjarlægðin er um 2.400 km og munu ferðalangar mæta hafísþekjunni þegar komið er á 84°N.  Á bakaleiðinni mun verða komið við á Franz Josefs Landi og eyjaklasinn og lífríkið skoðað og er áætluð koma til Múrmansk 29.-30. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert