52 bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslögum

Ríkisendurskoðun hvetur fjármálaráðherra til að kanna hvort nauðsynlegt sé að …
Ríkisendurskoðun hvetur fjármálaráðherra til að kanna hvort nauðsynlegt sé að fram fari heildarendurskoðun á lögum um tekjuskatt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í lögum um tekjuskatt eru að finna 52 bráðabirgðaákvæði í gildi. Flest eru um framlengingu á gildistíma tiltekinna ákvæða sem sett voru til skamms tíma.Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta í nýrri skýrslu.

„Erfitt er að lesa úr lögunum hvaða ákvæði eru í gildi á hverjum tíma auk þess sem þetta flækir skattframkvæmdina. Ríkisendurskoðun beinir því til Alþingis og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að kanna hvort nauðsynlegt sé að fram fari heildarendurskoðun á þessum lögum,“ segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun.

Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Regluleg fjárhagsendurskoðun er viðamesta verkefni stofnunarinnar en tæplega helmingur starfsmanna sinnir því, 21 af samtals 43. Auk þess annast endurskoðunarfyrirtæki vinnu á þessu sviði samkvæmt samningum við Ríkisendurskoðun. Stofnunin gerir grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum fjárhagsendurskoðunar í árlegri skýrslu til Alþingis sem jafnframt er birt opinberlega.

Heildarútgjöld ríkissjóðs námu 561,7 milljörðum króna á síðasta ári og voru í heild innan fjárheimilda. Tekjurnar námu hins vegar 525,9 milljörðum króna og því varð 35,8 milljarða króna halli á rekstrinum. Bókfærðar eignir ríkissjóðs námu rúmlega 1.113 milljörðum króna og heildarskuldir 1.952 milljörðum króna. Þar af námu lífeyrisskuldbindingar 388,5 milljörðum króna. Eigið fé var neikvætt um 839,2 milljarða króna samanborið við 774,1 milljarða króna í árslok 2011.

„Almennt gildir að endurskoðun þarf að vera nægilega umfangsmikil til að endurskoðandinn geti sannreynt hvort reikningar gefi glögga mynd af rekstri og efnahag. Ríkisendurskoðun er fáliðuð og hefur ekki tök á að endurskoða alla liði fjárlaga á hverju ári en þeir voru samtals 431 árið 2012. Stofnunin verður því árlega að velja úr liði til endurskoðunar. Valið byggist m.a. á mati á ætluðu mikilvægi þeirra fyrir niðurstöðu reikningsskilanna í heild en í því sambandi hafa útgjaldafrekustu liðirnir eðlilega mesta þýðingu. Þess má geta að árið 2012 stóðu 80 fjárlagaliðir að baki um 83% ríkisútgjalda.

Um miðjan september sl. höfðu 118 fjárlagaliðir í A-hluta ríkisreiknings hlotið endurskoðun og námu samanlögð útgjöld þeirra tæplega 71% af heildarútgjöldum ríkisins á árinu. Á sama tíma höfðu reikningsskil 13 aðila í B–E-hluta ríkissjóðs verið endurskoðuð. Enn er unnið að endurskoðun nokkurs fjölda stofnana og fjárlagaliða en áætlað er að vinnunni ljúki um næstu mánaðamót. Þá var mikil áhersla lögð á endurskoðun efnahags- og tekjuliða ríkisreiknings,“ segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert