Flestir vilja að þjóðkirkjan fái að byggja

Hallgrímskirkja í faðmi fjallanna
Hallgrímskirkja í faðmi fjallanna mbl.is/Ómar Óskarsson

Flestir voru hlynntir því að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en fæstir voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingu. Þetta er niðurstaða könnunar MMR.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 67,2% vera fylgjandi því að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi og 8,5% voru því andvíg. 31,5% sögðust vera fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 43,4% voru því andvíg.

54,7% sögðust vera fylgjandi því að Ásatrúarfélagið fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 9,1% voru því andvíg.

41,7% sögðust vera fylgjandi því að Búddistafélagið fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 22,1% voru því andvíg.

32,9% sögðust vera fylgjandi því að rússneska rétttrúnaðarkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 29,7% voru því andvíg.

Eldra fólk oftar fylgjandi byggingum á vegum þjóðkirkjunnar

Hlutfall þeirra sem voru fylgjandi því að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar var hærra á meðal þeirra sem eldri eru en á meðal þeirra sem yngri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust 75,3% vera fylgjandi því að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi, 76,2% meðal þeirra sem voru á aldrinum 60-67 ára og 75,2% á meðal þeirra sem voru á aldrinum 50-59 ára.

Til samanburðar sögðust 58,3% á aldrinum 18-29 ára vera fylgjandi því að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi og 58,2% á aldrinum, 30-39 ára, segir í fréttatilkynningu MMR.

Yngra fólkið styður frekar við byggingar múslima

Aftur á móti var hlutfall þeirra sem voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi hærra á meðal þeirra sem yngri eru en á meðal þeirra sem eldri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum sögðust 40,8% vera fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi, borið saman við 19,6% í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri).

Þegar afstaða er skoðuð eftir stuðning við ríkisstjórnina kemur í ljós að stærra hlutfall þeirra sem styður ríkisstjórnina en þeirra sem styður ekki ríkisstjórnina gerir greinamun á trúfélögum þegar kemur að leyfi til að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja ríkisstjórnina sögðust 70,3% vera fylgjandi því að að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 20,3% sögðust vera fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Af þeim sem sögðust ekki styðja ríkisstjórnina sögðust 66,5% vera fylgjandi því að að þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 44,8% sögðust vera fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert