Ný hlustpípa og hlaupaskór duga ekki til

Skurðaðgerð á Landspítala.
Skurðaðgerð á Landspítala. mbl.is/Ásdís

Umræðan um landflótta lækna og launamál þeirra er glannaleg, að mati heilbrigðisráðherra. Læknir sem miðlar hundruðum verktakastarfa á Norðurlöndum til íslenskra lækna í viku hverri segir hins vegar að taka verði mark á viðvörunarljósunum. Hagræðingu sé stýrt of mikið ofan frá án samráðs við lækna.

„Við erum að tala um fólk sem hefur lagt það á sig af að búa erlendis með fjölskyldur sínar í fleiri, fleiri ár til að leggja stund á nám og steypa sér í skuldir af hugsjón. Ég held það sé þess virði að hlusta á þetta fólk,“ segir Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir.

Erfið tilhugsun að snúa heim

Árið 2009 stofnaði Guðmundur Karl vinnumiðlunina Hvíta sloppa, að eigin sögn til að gera íslenskum læknum það kleift að lifa af laununum hér á landi, með því að fara öðru hverju út að drýgja tekjurnar. 

Á þeim tæpu 5 árum sem liðin eru síðan hefur ekkert lát verið á spurninni eftir íslenskum læknum erlendis frá. Á sama tíma hefur dregið mjög úr starfsánægju lækna á Landspítala, samkvæmt könnunum og laun lækna hafa dregist aftur úr launum sambærilegra stétta á almennum vinnumarkaði og ríkinu.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fékk afhenta yfirlýsingu frá 141 lækni búsettum erlendis, á aðalfundi Læknafélags Íslands fyrir helgi. Í yfirlýsingunni segir að það sé afar erfið tilhugsun fyrir sérfræðilækna erlendis að snúa heim í þá óvissu sem nú ríki. Óskuðu læknarnir eftir skýrum línum frá stjórnvöldum um aðgerðir til bjargar Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu.

Launamálin fíllinn í stofunni

Í ávarpi sínu á fundi Læknafélagsins gagnrýndi Kristján Þór að umræðan um heilbrigðismálin væri lausbeisluð á köflum og stóru orðin ekki spöruð, sérstaklega þegar rætt væri um landflótta og launamál.

„Það er ekkert nýtt að íslenskir læknar starfi erlendis og við vitum að margir sem fara í sérfræðinám úti ílengjast þar – sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt,“ sagði heilbrigðisráðherra. Hann sagðist auðvitað vilja halda í lækna og annað fagfólk en að hægt sé að laða það til starfa með ýmsum hætti. Hins vegar sjái hann ekki fyrir sér launatölur, sambærilegar við þær sem þekkjast á Norðurlöndum.

Guðmundur Karl segir launamálin vera fílinn í stofunni sem horfast þurfi í augu við og bendir á að dagvinnulaun aðstoðarlæknis á Landspítala séu oft 340-350 þúsund á mánuði. Fyrir sambærilega stöðu í Svíþjóð séu launin tvöfalt hærri.

Þá má geta þess að laun læknanema á Landspítala eftir 5 ára háskólamenntun í læknisfræði er um 289 þúsund krónur og 6. árs nemar eru með 300 þúsund krónur í dagvinnulaun.

Alls staðar keppst um lækna

„Halda menn að það myndi breyta stöðunni ef niðurstaða komandi kjarabaráttu verði sú að læknar geti keypt sér nýja hlustpípu eða NIKE-skó til að hlaupa hraðar milli deilda? Ég held ekki. Ef við getum ekki borgað hærri laun, þá erum við bara að segja að þetta verði óbreytt ástand,“ segir Guðmundur Karl. Að óbreyttu sé það borin von að íslenskt heilbrigðiskerfi geti boðið læknum upp á nokkuð sem önnur Evrópulönd bjóði ekki margfalt betur.

 „Það er ekki einu sinni hægt að leita til atvinnulausra lækna í Grikklandi, Póllandi eða á Spáni, því Svíþjóð er líka búin að herja á þá lækna í mörg ár. Öll þessi lönd eru að keppast um lækna og á Norðurlöndum eru íslenskir læknar einna eftirsóttastir til vinnu. Þeir fá hæstu einkunn meðal sjúklinga í Svíþjóð og það er talað um þá sem ótrúlega sveigjanlega og jákvæða.“

Fram að eða fram af bjargbrúninni?

Guðmundur Karl lét hafa eftir sér í viðtali við Rúv fyrir nokkru að bjarga þurfi því sem sé í rúst í íslensku heilbrigðiskerfi eða komið fram af bjargbrúninni margumræddu. Kristján Þór vék sérstaklega að þessum ummælum í ræðu sinni á fundi Læknafélagsins og sagði gífuryrði ganga fram af sér.

Aðspurður segist Guðmundi Karli ekki líka þetta líkingamál um heilbrigðiskerfið á hengiflugi, en hann standi þó við orð sín. „Þegar nánast hver einasti unglæknir er að leita að leið til að komast í burtu, þegar læknanemar vilja ekki koma inn á stofnanirnar og þegar læknar þurfa að taka steralyf vegna myglusvepps í vinnunni, þegar öll von er horfin úr kerfinu, þá erum við fyrir töluverðu síðan farin fram af hengifluginu.“

Af umræðunni undanfarin misseri má ráða að starfsfólk, stjórnendur og ráðamenn í heilbrigðiskerfinu greini á um nákvæmlega hversu nálægt bjargbrúninni Landspítalinn sé eða hvort hann sé farinn fram af henni.

Guðmundur Karl er þó ekki einn um að telja spítalann farinn fram af, því í febrúar á þessu ári sagði Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, að í heilbrigðismálum séum við „ekki komin fram að þessari títtnefndu bjargbrún, heldur fram af henni“.

Erfitt að tjá sig í litlu landi með einn vinnustað

Heilbrigðiskerfið þarf á því að halda að von sé blásið í það, að mati Guðmundar Karls. Sjálfur er hann þeirrar skoðunar að opna þurfi kerfið þannig að heilbrigðisstofnanir megi auglýsa eftir læknum til verktakavinnu. Nauðsynlegt sé að skoða fjölbreyttara rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, ekki síst til þess að starfsfólk geti haf áhrif á sína vinnustaði og stjórn þeirra.

„Það er erfitt að tjá sig í svona litlu landi með bara einn vinnustað fyrir sjúkrahúslækna,“ segir Guðmundur Karl og bætir því við að of lengi hafi viðgengist að ekki sé hlustað á þá lækna sem tjái sig.

„Enginn læknir vill gera heilbrigðiskerfinu illt. Við læknar erum í þessu starfi fyrir lífstíð, þetta er ævistarf og hugsjón. Það er almennur velvilji meðal lækna, bæði þeirra sem starfa hér og erlendis, og þó þeir láti einhverja gagnrýni út úr sér er það ekki vegna þess að þeir séu að reyna að klekkja á ráðherrum og heilbrigðisyfirvöldum, síður en svo. Þeir eru að reyna að ná eyrum fólks. Þetta er eins og þegar það blikkar ljós í bílnum hjá þér, þetta eru varúðarperur sem við verðum að taka mark á.“

Guðmundur Karl segir ekki hægt að byggja heilbrigðiskerfið upp að ofan heldur verði að gera það með samráði við heilbrigðisstarfsfólk. 

„Við verðum að hlusta á gagnrýni og taka hana til greina, það þýðir ekki að sópa henni undir teppið. Ég held að það sé því fyrr því betra að við áttum okkur á því hvernig staðan er, þó það sé sársaukafullt, því þá kannski höfum við möguleika á að vinna okkur út úr því.“

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á fundi með læknaráði Landspítala.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á fundi með læknaráði Landspítala. mbl.is/Rósa Braga
Á Landspítalanum.
Á Landspítalanum. mbl.is/Rósa Braga
Læknar á Landspítala að störfum.
Læknar á Landspítala að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert