Fjörðurinn yrði að ísöltu lóni

Síldardauði í Kolgrafafirði
Síldardauði í Kolgrafafirði Af vef umhverfisráðuneytisins/ Róbert Arnar Stefánsson

„Ég hef ekki séð neitt en ég veit að Umhverfisstofnun var falið að vinna þessa áætlun. Hins vegar veit ég ekki hvar sú vinna stendur eða hvenær á að kynna hana,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, en Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, bað stofnunina að gera viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs síldardauða í Kolgrafafirði. 

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að bæjarráð Grundarfjarðar telji öruggast að loka Kolgrafafirði til að tryggja að síld gangi ekki þar inn.

Aðspurður segir Róbert Arnar ýmsar hugmyndir vera nú uppi um hvernig loka mætti firðinum. „Það er verið að tala um að setja stálþil undir brúnna eða að hella grjóti í gatið þannig að þetta verði garður þarna yfir og fjörðurinn lokist,“ segir Róbert Arnar og bætir við að honum lítist illa á hugmyndirnar við fyrstu sýn auk þess sem þörf væri á að setja hugsanlegar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. „Það ferli tekur auðvitað sinn tíma svo þetta er ekki eitthvað sem er að fara að gerast núna.“

Sem kunnugt er drapst mikið magn síldar, alls um eða yfir 50.000 tonn, í firðinum síðastliðinn vetur. Í ljósi þessa segir Róbert Arnar því menn vera að velta upp öllum þeim hugmyndum sem komið geta í veg fyrir frekari síldardauða.

Mikil áhrif á lífríki

Spurður út í hugsanlegar afleiðingar af því að loka firðinum svarar Róbert Arnar: „Sjávarföll myndu líklegast leggjast af að mestu leyti, það myndi kannski seytla eitthvað gegnum grjótgarðinn. Þetta myndi þá breytast í einhverskonar ísalt sjávarlón með litlum fjörum fyrir innan brú en fjörur eru t.a.m. mikilvægt fæðusvæði fyrir fugla.“

Þá bendir hann jafnframt á að selta myndi koma til með að minnka umtalsvert í Kolgrafafirði sökum þess að rennsli er af ferskvatni í fjörðinn. Í kjölfarið myndi svo mikið af því lífríki sem finnst í firðinum drepast.

„Við erum því að tala um að það kæmi allt annars konar lífríki í staðinn og ekki eins ríkt.“

Aðspurður hvort hægt væri að loka fyrir fjörðinn með öflugu neti segir Róbert Arnar það nær útilokað vegna þess hve straumhart svæðið er. „Ef sett yrði upp net og síldartorfa kæmi í það myndi allt springa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert