Gefi ekki eftir í makríldeilunni

Makríll.
Makríll. Ljósmynd/ Albert Kemp

Framkvæmdastjórn Heimssýnar skorar á íslensk stjórnvöld að falla ekki frá kröfum um 16-17% hlutdeild í makrílveiðinni, nú þegar samið er um skiptingu aflans á fundi hagsmunaríkja í Lundúnum.

Félagar í Heimssýn ályktuðu um málið fyrr í dag og lögðu þar áherslu á að „ekki verði látið undan hótunum Evrópusambandsins í samningum um hlutdeild Íslands í heildar makrílveiði“.

Þá tengja þeir samningaviðræðurnar við aðildarumsóknina að ESB.

„Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16-17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.

Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin. Þá leggja samtökin áherslu á að stjórnvöldum haldi fast við fyrri kröfur um aflahlutdeild í makríl.

Heimssýn skorar jafnframt á ríkisstjórnina að afturkalla þegar í stað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu,“ segir í ályktuninni.

Þrír fyrrverandi ráðherrar samþykktu ályktunina, þeir Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra 1999-2007, Ragnar Arnalds, fv. fjármálaráðherra 1980-1983, og Jón Bjarnason, fv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert