Ríkisfangslaus og án réttinda á Íslandi

Kona syrgir við minnisvarða um þá sem féllu í stríðinu …
Kona syrgir við minnisvarða um þá sem féllu í stríðinu í Abkasíu á árunum 1992-1993. AFP

Kona frá Georgíu sem hefur unnið hér á landi og greitt skatta í mörg ár hefur ekki aðgang að velferðarkerfinu, ekki einu sinni sjúkratryggingakerfinu. Hún getur hvorki öðlast ökuréttindi né sótt um bankalán, þar sem hún hefur ekki lögheimili hérlendis og borgaraleg réttindi hennar eru mjög takmörkuð. „Hún býr í sama samfélagi og við en hún er ekki með sömu stöðu, hún er ekki með okkur í raun. Hún er í „limbói“. Hvað hefur valdið slíkri stöðu?“ skrifar Toshiki Toma, prestur innflytjenda í grein í Morgunblaðinu í dag.

Konan heitir Lika Korinteli. Hún er georgísk og fæddist árið 1970 í Abkasíuhéraði í Georgíu.  Árið 1992 lýsti Abkasía yfir sjálfstæði sínu en baráttan milli Abkasíu og Georgíu hélt áfram. Enn í dag segist Abkasía vera sjálfstæð þjóð á meðan Georgía telur hana hluta af georgísku þjóðinni, skrifar Toshiki.

Skjalasafnið brann

Í ferli stríðsins flúðu margir georgískir íbúar Abkasíu og fóru á öruggari svæði í Georgíu. Lika var meðal flóttamannanna. Foreldrar hennar voru látnir áður en hún fór á flótta.

Lika var í skjóli í Tbilisi í Georgíu sem flóttamaður og vann í smásöluturni fyrir smápeningum. Hún hélt áfram að lifa sem flóttamaður í um tíu ár en stjórn Georgíu vann ekki vel í málefnum flóttamanna eða gerði þá að venjulegum borgurum. Allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu. Safnið brann í stríðinu árið 1992 og Lika varð pappírslaus en stjórn Georgíu lét henni ekki í té nýja pappíra sem georgískum borgara. Þá ákvað ríkisstjórnin að loka skjólinu og hætta að styðja flóttamennina árið 2004. Það sem flóttamennirnir fengu frá ríkinu var ákveðin peningaupphæð, en hún var of lítil til að byrja nýtt líf. Lika sá ekkert annað í stöðunni en að flýja heimaland sitt, Georgíu.

Til Íslands í leit að von

„Lika kom til Íslands árið 2005, í leit að nýrri von, og sótti um leið um hæli,“ skrifar Toshiki. En hælisumsókn hennar var synjað af Útlendingastofnun (ÚTL) eftir hálft ár og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti úrskurð ÚTL hálfu ári síðar. Í ferli málsmeðferðar komu þær upplýsingar frá yfirvöldum Georgíu að þau gætu ekki borið kennsl á að Lika væri ríkisborgari í Georgíu. Þá sótti Lika um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2008 en fékk synjun frá ÚTL árið 2012 og var málinu áfrýjað til innanríkisráðuneytisins og er Lika enn að bíða eftir svari ráðuneytisins.

Lika fékk takmarkað dvalar- og atvinnuleyfi árið 2006 og síðan hefur hún stöðugt verið í vinnu. En réttindi hennar eru mjög takmörkuð. „Sem sé: Líf hennar er enn í algjörri óvissu og það er ekki hægt fyrir hana að byggja upp eigið líf eins og venjuleg manneskja gerir,“ skrifar Toshiki í grein sinni.

„Níu ár. Lika er búin að vera á Íslandi í næstum því níu ár. Séu talin með árin sem hún eyddi sem flóttamaður í Georgíu eru það næstum tuttugu ár. Þar sem yfirvöld í Georgíu viðurkenna ekki Liku sem georgískan ríkisborgara er ekki hægt að senda hana til baka, raunar til einskis lands. Hún festist hér á Íslandi og er í rauninni orðin ríkisfangslaus,“ skrifar Toshiki.

Hvað vantar meira?

Lika getur ekki sýnt fram á þá pappíra sem ÚTL krefst af henni. Þekkt mannréttindasamtök, „Human Rights Watch“, benda á erfiðleika georgísks fólks sem bjó áður í Abkasíu við að fá formlega pappíra eins og vegabréf eða fæðingarvottorð. 

„Ef einhver getur komið einhverri hreyfingu á þetta „limbó“ held ég að það væru íslensk yfirvöld og það eigi að vera þau. Mig langar að biðja þau um að sjá heildarmynd máls Liku. Við vitum um stríðið í Abkasíu og flóttamennina sem streymdu þaðan til Georgíu. Það eru engar efasemdir um að Lika sé frá Abkasíu/Georgíu vegna tungumálskunnáttu og ítarlegra lýsinga um aðstæður þar. Sú staðreynd að hún hefur verið stöðugt í vinnu á Íslandi og ekki valdið neinum vandræðum ætti að vera henni til hagsbóta sem og jákvæðir vitnisburðir fólks sem þekkir hana hérlendis. Hvað vantar meira?“ spyr Toshiki.

„Að mínu mati er það mannréttindabrot að láta manneskju vera í „limbói“ yfir svo langan tíma. Ég óska þess innilega að íslensk yfirvöld stígi það skref sem bjargar Liku, þar sem hún er fórnarlamb stríðs og ringulreiðar sem fylgdi því.“

Toshiki Toma, prestur innflytjenda.
Toshiki Toma, prestur innflytjenda. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Frá Georgíu.
Frá Georgíu. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert