Rúmlega 200 tunnur skildar eftir

Bannað er að henda pappír með almennu sorpi.
Bannað er að henda pappír með almennu sorpi. Ljósmynd/Elfa Ellertsdóttir

Þrátt fyrir að sorphirðumenn í Reykjavík hafi þurft að skilja nokkrar tunnur eftir síðan hertar reglur um flokkun á sorpi tóku gildi, telur Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að Reykvíkingar hafi almennt verið tilbúnir að stíga þetta skref í flokkun úrgangs.

„Við höfum þurft að skilja eftir mun færri tunnur en mátti búast við,“ segir Eygerður í samtali við mbl.is. Að sögn hennar hafa 200 tunnur undir blandaðan úrgang ekki verið losaðar vegna þess að pappírinn hefur augljóslega ekki verið flokkaður frá, en nýjar reglur tóku gildi 10. október síðastliðinn. Eygerður segir Reykvíkinga duglega að flokka og margir hafi pantað bláu tunnuna í haust eftir að nýjar reglur voru kynntar.

„Við fundum fyrir mikilli aukningu eftir að við fórum að upplýsa um þessa breytingu og hafa tunnur verið keyrðar út um hverja helgi undanfarið,“ segir Eygerður. Ekki er skylda að panta tunnu fyrir pappír, einnig má skila í grenndargáma sem eru víða á höfuðborgarsvæðinu.

Aðspurð segir Eygerður að það sé einna helst dagblöð og pítsakassar sem komi í veg fyrir að svörtu tunnurnar eru ekki tæmdar. Ef pappír er í tunnunum sem ætlaðar eru fyrir rusl, er þeim lokað aftur og límmiði settur á tunnuna með skilaboðum um það hvert íbúar geta snúið sér. Að sögn Eygerðar hafa fáar neikvæðar athugasemdir borist borginni vegna nýju reglnanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert