Útgáfa nýs seðils „slæmar fréttir“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri afhenti Bjarna Benediktssyni tíu þúsund króna seðil …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri afhenti Bjarna Benediktssyni tíu þúsund króna seðil númer 1 til varðveislu í safnakosti landsmanna. mbl.is/Rósa Braga

Nýr 10.000 kr. seðill var settur í umferð í dag og af því tilefni afhenti Már Guðmundsson seðlabankastjóri Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra seðil númer 1 til varðveislu í safnakosti landsmanna. Már segir að þörf á útgáfu nýs seðils séu „slæmar fréttir þar sem hún á rætur að  rekja til of mikillar verðbólgu“.

Tilgangur með útgáfu seðilsins er að gera greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari, meðal annars með því að fækka seðlum í umferð.

Í lok september voru 13,9 milljónir seðla í umferð, þar af 7,1 milljón 5.000 kr. seðla.

„Það skal ekki dregin dul á það hér að þörfin á útgáfu nýs seðils er þegar öllu er á botninn hvolft slæmar fréttir þar sem hún á rætur að  rekja til of mikillar verðbólgu hér á landi á undanförnum áratugum. Þegar tvö núll voru tekin af íslensku krónunni í byrjun árs 1981 var verðmesti seðilinn 500 kr. Það samsvarar um 20 þúsund krónum um þessar mundir,“ sagði Már í ræðu sem hann flutti af þessu tilefni í dag.

„Verðgildi seðla hefur því rýrnað um tæp 98% á þessu tímabili. Stærstur hluti þeirrar rýrnunar átti sér hins vegar stað fyrsta áratuginn enda nam verðbólga að meðaltali tæplega 31% á níunda áratug síðustu aldar og fór hæst í 102,7% í ágúst 1983. Verðgildi seðla rýrnaði því um 93% á níunda áratugnum. Á tíunda áratugnum nam verðbólgan hins vegar að meðaltali um 3%, en tæplega 6% það sem af er þessari öld. Í sögulegu samhengi hefur því náðst nokkur árangur í að draga úr verðbólgu hér á landi. Það má þó gera enn betur þar sem verðbólga er um þessar mundir í kringum 4% sem þýðir að verðgildi peninga rýrnar um rúm 32% á heilum áratug. Með 2½% verðbólgu, sem er markmið  okkar, er samsvarandi tala tæp 22%. Það er því til nokkurs að vinna,“ sagði Már.

Engin áform um stærri seðil

Seðillinn er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, en í seðlinum má finna vísanir í störf Jónasar. Gerð seðilsins er svipuð og þeirra seðla sem nú eru í umferð, auk nýrra og fullkomnari öryggisþátta. Aðallitur seðilsins er blár. Kristín Þorkelsdóttir hannaði seðilinn. Samstarfsmaður hennar og meðhönnuður var Stephen Fairbairn.

„Við erum nú að taka í notkun nýjan tíu þúsund króna peningaseðil en hvað mun framtíðin bera í skauti sér í þessum efnum? Það eru engin áform um stærri seðil á þessum tímapunkti og hvort það verður þörf á honum síðar meir ræðst af verðbólgunni og eftirspurn eftir seðlum almennt, þar með þessum nýja seðli,“ sagði Már ennfremur.

Már tók fram, að það sé ekki hversdagslegur viðburður að nýir seðlar séu settir í umferð hér á landi enda átján ár síðan það gerðist síðast með tvö þúsund króna seðlinum. Enn lengra er síðan verðmeiri seðill en þeir sem fyrir voru var gefinn út, eða tuttugu og sjö ár, þegar fimm þúsund króna seðillinn var settur í umferð.

Hann sagði ennfremur, að útgáfa 10 þúsund króna seðils nú verði að teljast hófleg aðgerð sem markist m.a. af þeirri staðreynd að íslensk greiðslumiðlun sé að stórum hluta rafræn og mjög skilvirk.

„Tilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst sá að gera seðlanotkun hagkvæmari þar sem eftirspurn er annað með færri seðlum en áður,“ sagði Már.

Nánari upplýsingar um seðlilinn á vef SÍ.

Ræða seðlabankastjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert