Vatnið orðið 61°C heitt

Af vef Rarik

Heitu vatni var hleypt á stofnæð til Skagastrandar í gær og opnað fyrir til reynslu í dælustöðinni á Skagaströnd. Rennsli var um 17 sekúndulítrar og undir kvöld var hitastigið komið í 61°C. Í dag og næstu daga verður ýmis búnaður prófaður og í kjölfarið hleypt á bæjarkerfið í áföngum. Fyrstu húsin verða því tengd á næstu dögum. Þetta kemur fram í frétt á vef Rarik.

 Undanfarna daga var unnið að frágangi á tengigrindum og að uppsetningu mæla fyrir hitaveituna á Skagaströnd. Nýjustu tækni er beitt við mælingu og álestrar verða rafrænir og því verða allir reikningar byggðir á raunverulegri notkun, í stað þess að áætla milli álestra eins algengast var.

 Þegar vatni verður hleypt á eftir nokkra daga er mikilvægt að aðgengi starfsmanna hitaveitunnar að inntaki sé óhindrað. Tappa þarf lofti af og tryggja að búnaður sé í lagi. Gott samstarf við húseigendur því mikilvægt.

 Til að veitan virki eðlilega þurfa nægjanlega mörg hús að vera tengd til að halda uppi rennsli í ákveðnum greinum eða hverfum. Í fyrstu má því búast við að hitastig vatns verði lægra en það verður þegar veitan kemst í fulla notkun. Í gjaldskrá er tekið tillit til hitastigs á vatni og auk þess verður vatnið ókeypis til áramóta.

 Til að halda uppi réttu hitastigi er mikilvægt að sem flestir tengist sem fyrst. Þeir sem ekki hafa tök á því að taka strax inn vatn til húshitunar, eru hvattir til að taka inn kranavatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert