Vilja að ráðherra stöðvi framkvæmdirnar

mbl.is/Júlíus

Umhverfishópur Dögunar lýsir yfir sárum vonbrigðum með óafturkræfar framkvæmdir í Garða- og Gálgahrauni á meðan niðurstöður dómstóla liggja ekki fyrir í málum sem varða framkvæmdina og skorar á innanríkisráðherra að stöðva þær þegar í stað.

Þetta kemur fram í ályktun sem Dögun samþykkti á fundi sínum í gær.

Þar segir, að það sé augljóst að vegurinn sé óþarfur miðað við núverandi aðstæður og að það sé mun ódýrara að lagfæra Álftanesveginn en að ráðast í þessa framkvæmd. Hægt væri að verja takmörkuðu fé ríkisins í mörg þarfari verkefni.

„Þá er sú harka sem friðsælum mótmælendum er sýnd á vettvangi algjörlega óafsakanleg og yfirvöldum til hneisu. Það er erfitt að leggja trúnað á að of fáir lögreglumenn séu að störfum alla jafna fyrst hægt er að verja slíkum mannauði í jafnómerkilegt verkefni og að ráðast gegn friðsömum borgurum í náttúru landsins. Þótt samgöngumál og lögreglumál séu nú saman í innanríkisráðuneytinu teljum við að kröftum lögreglunnar sé mun betur varið í önnur verkefni en vegagerð,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert