„Ekki bara kurteisistal“

Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína, fundaði með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra …
Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína, fundaði með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist hafa átt innihaldsríkan fund í kvöld með Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína. „Þetta var ekki bara kurteisistal heldur voru menn að ræða raunverulega hvernig væri hægt að auka samstarf ríkjanna í þágu landanna beggja,“ segir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Ma kom til landsins í dag ásamt fjölmennri sendinefnd. Fundurinn hófst kl. 18 og stóð hann yfir í tæpan einn og hálfan tíma. 

Aðspurður segir Sigmundur að mikið hafi verið rætt um alþjóðamál, mannréttindamál, málefni norðurslóða, siglingar, loftferðamál, jafnréttismál, málefni Tíbets, fríverslunarsamning Íslands og Kína og samstarf þjóðanna á sviði rannsókna - ekki hvað síst á sviði jarðhita.

Sigmundur segir að Ma hafi lýst því hvernig íslensk tækni hafi átt mikinn þátt í gríðarlega umfangsmikilli þróun í kínverskum borgum. „Þar sjá menn fyrir sér áframhaldandi samstarf. Mér skilst að það sé 81 orkuver í Kína sem nýta íslenska tækni, sem Orka Energy er að innleiða þar.“

Kínverski markaðurinn mikilvægur

Spurður út í umræður þeirra um málefni norðurslóða, segir Sigmundur að töluverður samhljómur hafi verið um þau tækifæri sem liggja fyrir varðandi þróunina á norðurslóðum.

„Ég sagði að þessi ríkisstjórn myndi leggja mikla áherslu á norðurslóðamál og jafnframt legðum við áherslu á að efla okkur á nýjum útflutningsmörkuðum. Hann var reyndar fyrri til að koma inn á það. Hann benti á að í framhaldi af efnahagskrísunni þá kynni að vera ástæða til þess að finna nýja markaði. Ég tók undir mikilvægi þess að Íslendingar vildu nýta þau tækifæri sem fríverslunarsamningurinn veitti til hins ýtrasta, og að kínverski markaðurinn væri augljóslega mjög mikilvægur til framtíðar,“ sagði Sigmundur.

Varðandi fríverslunarsamninginn, sagði Sigmundur að rætt hefði verið um framhald á þeirri vinnu sem stendur yfir um gerð vinnumarkaðssamnings á milli landanna.

Ísland fyrirmynd í jafnréttismálum

Hvað varðar jafnréttismál, segir Sigmundur að Ma hafi lýst því yfir að Kínverjar líti til Íslands sem fyrirmyndar í jafnréttismálum. Sigmundur fylgdi umræðum á eftir með því að nefna önnur mannréttindamál. 

„Umræðan um mannréttindamálin var töluvert hreinskiptin. Kínverski varaforsætisráðherrann sagði að það hefði náðst mikill árangur í að bæta mannréttindi í Kína en að sú vinna héldi áfram,“ sagði Sigmundur.

„Hann var hreinskilinn um að það hefði farið fram mikil vinna þar [í Kína] en að það væri líka verk óunnið. Það fylgdu því stór úrlausnarefni á sviði mannréttinda þegar að vöxturinn væri jafn mikill og hraður og í Kína,“ sagði forsætisráðherra.

Varðandi Tíbet, segir Sigmundur að hann hafi hvatt ráðherrann til að hleypa fulltrúum Sameinuðu þjóðanna til landsins  til að fylgjast með þróun mannréttindamála í Tíbet. „Auk þess að gæta að réttindum á vinnumarkaði samhliða þessum öra vexti í efnahagslífi Kínverja,“ segir Sigmundur.

Kínverjar vilja samstarf

Sigmundur segir að á fundinum hafi kínverska sendinefndin ítrekað vilja sinn til að starfa sem mest með Íslendingum að rannsóknum og að því að nýta efnahagsleg tækifæri. „Ég lýsti því að það væri stefna þessarar ríkisstjórnar að útvíkka utanríkisviðskipti okkar og þar skiptir Kína náttúrulega gríðarlega miklu máli. Eins þyrftum við að eiga gott samstarf um tækifærin á norðurslóðum. Um þetta voru þeir sammála.“

Ma Kai hefur verið á Evrópuferðalagi að undanförnu þar sem hann hefur fundað með evrópskum leiðtogum. Það kom upp með skömmum fyrirvara að Ma ætti lausan tíma í dagskrá sinni og því könnuðu íslensk stjórnvöld hvort hann hefði tækifæri til að sækja Ísland heim. Endanlegt svar lá fyrir í vikunni og það var svo í dag sem ráðherrann kom til landsins ásamt fjölmennri sendinefnd. 

Ma mun eiga fund með forsta Íslands í fyrramálið og á mánudag mun hann fljúga af landi brott. 

Ma Kai skrifaði nafn sitt í gestabók í Þjóðmenningarhúsinu.
Ma Kai skrifaði nafn sitt í gestabók í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert